Hér fyrir neðan hef ég sett inn stutta kennslu um hvers vegna að gefa og hvað það hefur í för með sér sé það gert á réttum forsendum.

það eru yndisleg fyrirheit í orðskviðunum sem tala um fórnir.

Orðskviðirnir 3:9-10

Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,
þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.

Orðskviðirnir 11:25

Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.

Einnig þekkjum við flest það sem Guð segir í Malakí.

Malakí 3:7-11

Allt í frá dögum feðra yðar hafið þér vikið frá setningum mínum og ekki gætt þeirra. Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar segir Drottinn allsherjar. En þér spyrjið: Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?-8- Á maðurinn að pretta Guð, úr því að þér prettið mig? Þér spyrjið: Í hverju höfum vér prettað þig? Í tíund og fórnargjöfum.-9- Mikil bölvun hvílir yfir yður, af því að þér prettið mig, öll þjóðin.-10-Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt segir Drottinn allsherjar, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður blessun.-11-Og ég mun hasta á átvarginn fyrir yður, til þess að hann spilli ekki fyrir yður gróðri jarðarinnar og víntréð á akrinum verði yður ekki ávaxtarlaust segir Drottinn allsherjar.

Tíundin tilheyrir Guði!

Lúkasarguðspjall 11:42

En vei yður, þér farísear! Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

Hér talar Guð sjálfur og leggur sterka áherslu á tíund og fórnir. Hann hvetur okkur til þess að reyna sig á þennan hátt og það hef ég svo sannarlega gert. Ég er ekki að segja ykkur að gera eitthvað sem ég geri ekki sjálfur, eftir að ég byrjaði að borga tíund og gefa fórnir hef ég ekki liðið skort. Meira að segja í þessum fjárhagsþrengingum hefur Guð séð fyrir öllum mínum þörfum.

Þetta virkar ekki nema að maður geri það sem Orð Guðs segir. Eins og ég sagði þá tilheyrir tíundin Guði og við erum í raun ekki að gefa né sá fyrr en við gefum fórnir fyrir utan tíundina. En ef við sáum ofan á tíundina þá getum við verið jafnviss um að fá uppskeru eins og maður sem plantar fræjum í mold. (Orð Guðs bregst ekki!)

Hér sjáum við í Lúkasarguðspjalli.

Lúkasarguðspjall 6:38

Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.

Hér segir að ef að við gefum þá mun okkur gefið verða, hér er í gildi lögmál Guðs um sáningu og uppskeru, þú munt fá uppskeru af því sem þú sáir.

Ekki að það eigi að vera aðalástæða þess að við gefum, heldur gefum við vegna þess að það er hluti af lofgjörð til Guðs. Við tignum Guð með eigum okkar eins og við lásum í Orðskviðunum, þetta er eitthvað sem við þurfum að biðja Guð um opinberun yfir ef að við erum ekki að stíga út á þetta.

Ef að þú átt erfitt með að gefa þá geturu spurt þig, treysti ég ekki Guði?

Ef að þú ert að ganga með Guði og ert ekki að gefa geturu spurt þig, er ég að fylgja Orðinu?

Sjáum hvernig söfnuðurinn í Makedóníu gerði þrátt fyrir þrengingar. (Skoðið vel)

Síðara Korintubréf 8. kafli

En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð, sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu.
Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim.
Ég get vottað það, hversu þeir hafa gefið eftir megni, já, um megn fram. Af eigin hvötum
lögðu þeir fast að oss og báðu um að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu.
Og þeir gjörðu betur en vér höfðum vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni, og síðan oss, að vilja Guðs.
Það varð til þess, að vér báðum Títus, að hann skyldi og leiða til lykta hjá yður þessa líknarþjónustu, eins og hann hefur byrjað.
Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu. (Að gefa í King James Bible)
Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.

Þetta er stórkostlegur vitnisburður um gefandi hjarta, þeir vildu gefa af eigin hvötum, þrátt fyrir þrengingar og fátækt og meira að segja um efni fram. Þeir treystu greinilega Guði og Hans Orði um að Hann myndi sjá fyrir öllum þeirra þörfum.

Hér sjáum við eitt vers sem við getum lært af.

Síðara Korintubréf 9:6-7

En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.
Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.

Guð elskar glaðan gjafara, og við eigum að gefa eins og Guð leggur á okkur, ekki með ólund eða nauðung. Ef að við ætlum að gefa vegna þess að við þurfum þess en ekki vegna þess að við elskum Guð, þá getum við misst af blessunum Guðs. Guð hefur gefið okkur val og verum glöð þegar við gefum vegna þess að það gleður Föður okkar.

Matteusarguðspjall 6:3-4

En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir,
svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Hér sjáum við einnig að við eigum ekki að hrósa okkur af gjöfum okkar, heldur er það á milli okkar og Guðs og Hann mun umbuna okkur.
Ef að við hreykjum okkur þá getum við einnig misst af blessunum Guðs.
Við þurfum að lifa lífi auðmýktar og lítilætis á öllum sviðum.

Síðasta versið sem ég ætla að vitna í er.

Filippíbréfið 4:10-20

Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það.
Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er.
Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.
Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.
Engu að síður gjörðuð þér vel í því, að taka þátt með mér í þrengingu minni.
Þér vitið og, Filippímenn, að þegar ég í upphafi boðaði yður fagnaðarerindið og var farinn burt úr Makedóníu, hafði enginn söfnuður nema þér einir reikning hjá mér yfir gefið og þegið.
Meira að segja, þegar ég var í Þessaloníku, senduð þér mér oftar en einu sinni til nauðsynja minna.
Ekki að mér væri svo umhugað um gjöfina sem um ábata þann, sem ríkulega rennur í yðar reikning.
En nú hef ég fengið allt og hef meira en nóg síðan ég af hendi Epafrodítusar tók við sendingunni frá yður, þægilegum ilm, þekkri fórn, Guði velþóknanlegri.
En Guð minn mun af auðlegð dýrðar sinnar í Kristi Jesú uppfylla sérhverja þörf yðar.
Guði og föður vorum sé dýrðin um aldir alda. Amen.

Hér sjáum við Pál vitna um Filippímenn hvernig hann þakkaði þeim fyrir að hjálpa honum með nauðsynjar og í þrengingum, ekki það að hann þurfti á því að halda en engu að síður þá er það svo að bræður og systur hjálpa hvor öðru og hann gladdist yfir því og vissi að Guð myndi svo sannarlega setja það á reikning þeirra.

Safnið yður ekki fjarsjóðum á jörðu heldur á himni og ein leiðin til þess er einmitt að gefa inn í starf Guðs.

TÍUND

HVER? – Sá sem vill ganga með Guði, samkvæmt hans Orði, í lofgjörð.
HVENÆR? – Í hvert skipti sem við fáum innkomu.
HVAÐ? – Einn tíunda af upphæð (10%)
HVAR? – Þar sem við fáum okkar andlegu fæðu.
HVERNIG? – Staðfastlega, í trú, með gleði í hjarta.

FÓRNIR

HVER? – Sá sem vill ganga með Guði, samkvæmt hans Orði, í lofgjörð.
HVENÆR? – Þegar andinn leiðir okkur til þess að gefa.
HVAÐ? – Spyrja Guð hve mikið í hvert skipti, og fylgja hjartanu.
HVERNIG?  – Staðfastlega, í trú, með gleði í hjarta.

ÖLMUSUGJAFIR

HVER?  – Sá sem vill ganga með Guði, samkvæmt hans Orði, í lofgjörð.
HVENÆR? – Þegar andinn leiðir og þegar einhver beiðist af okkur.
HVAÐ? – Fylgja hjartanu og vera örlátur eftir efnum.
HVERNIG?  – Staðfastlega, í trú, með gleði í hjarta.

Mattusarguðspjall 5:42

Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.

Fyrra Tímóteusarbréf 6:6

Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.

Lifum nægjusömu lífi og ef Guð blessar okkur með fjármunum, verum þá trúföst í að blessa aðra.

Ég hef skrifað ykkur um hvað Orð Guðs segir um tíund og fórnir og mikilvægi þess að gefa, við sjáum að það er hluti af Orði Guðs og svo sannarlega hluti af lofgjörð okkar til hans.

Guð blessi þig!