Þrjár sýnir í lok tímanna
Koma Drottins ― Þrengingin mikla ― Endir veraldar
Þessi merkilega frásaga var gefin út í smáritaformi í Los Angeles. Allir sem þekkja ritningarnar munu komast að raun um, að þetta er í samræmi við Guðs spámannlega orð. Við vonum að tekið verði við boðskapnum sem viðvörun fyrir tímann sem við lifum á. Mætti hver lesandi, sem ekki er reiðubúinn, leitast við að gera upp sín mál gagnvart Guði, til þess að mega öðlast hlutdeild í þessum undursamlegu hlutum, sem ef til vill eru nær en okkur grunar.
„Nei, Herrann Drottinn gerir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ ― Amos 3,7. Þessa spámannlegu sýn gaf Guð stúlku frá Buckinghamshire í Englandi, og er hún í fullu samræmi við hið skrifaða orð. Stúlkan var hrifin í Anda í öll skiptin á bænasamkomum á einkaheimili, og fyrstu sýnina fékk hún eftir skírnarathöfn. Allar sýnirnar fékk hún milli 9. og 11. ágúst 1919. En það athyglisverðasta er, að inntak þeirra var ritað í bréfi þrem dögum áður, sem unga stúlkan hafði skrifað kristnum bróður í Camberley. Bréfið var sem sé skrifað 6. ágúst (en sýnirnar fékk hún milli 9. og 11. ágúst), og hefur það verið vandlega geymt síðan. Við viljum byrja á því að birta þetta bréf.
Það hljóðar svo:
Camberley, Surrey, 6. ágúst 1919
Kæri bróðir í Drottni Jesú
Lofað veri Hans nafn.
Ég hef mikið að lofa hann fyrir. Í gærkvöldi var ég, og tvær aðrar systur saman í bæn, í vökulok, og ég fylltist af Guðs Anda, og um leið og Drottinn birtist mér, sagði hann: „Á þeim tíma sem þið ætlið ekki!“ Svo hvarf hann sjónum mínum. Ég sá hann í allri hans dýrð, og hann var undursamlegur. Ég fylltist svo miklum fögnuði, að ég gat ekki fengið mig til að ganga til svefns, og beið hans og hann kom aftur og sagði:
„Vertu trúföst og ég mun sýna þér það sem koma mun yfir börn þessa heims, sem hafna mér. Þú skalt einnig fá að sjá upprisu þeirra sem dáið hafa í Kristi, og hvernig brúður Krists umbreytist. Þú skalt fá að sjá komu Andkrists, og falsspámanninn, merki þeirra sem tilbiðja dýrið, og þá sem taka við merki Andkrists. Þú munt líka fá að sjá hin tvö trúföstu, sönnu vitni, verk þeirra, píslarvættisdauða, og einnig píslarvætti þeirra, sem ekki vilja tilbiðja dýrið (Andkrist).
Þú skalt ekki óttast, því að ég, Drottinn, er með þér þegar ég sýni þér þessa hluti. Því að fólkið verður að vita, að það er Guð á meðal þeirra, og þeir skulu fá að vita að hann hefur varað þá við gegnum ambátt sína ― hvort sem þeir taka við boðskapnum, eða ekki.“
Nú bíð ég eftir því sem Drottinn vill við mig tala. Ég sá greinilega sáramerkin á höndum og fótum Drottins.
Þín systir í Drottni.
Fljótlega eftir að Drottinn hafði hrifið systurina í Andanum í fyrsta skipti, var þetta bréf lesið upp í áheyrn fjögurra persóna, sem höfðu verið á bænasamkomunum, því að það átti að skilja hvílíka sýn hún hafði fengið, og neyðina sem hún hafði fengið á eftir. Í eftirfarandi köflum er hægt að sanna hve nákvæmur boðskapurinn var, og getur lesandinn því verið viss um áreiðanleik sýnanna, því atburðarásin sýnir það.
Fyrsta hrifningin í Andanum
Hún stóð yfir í fimm klukkustundir, frá kl. 21:30 um kvöldið 9. ágúst, til kl. 2:30 um morguninn 10. ágúst.
Endurkoma Drottins
Andinn féll yfir mig á bænasamkomu, og var ég hrifin í Anda, og heyrði allt í einu háan og sterkan básúnuhljóm. Ég sá Drottin Jesú Krist ― hjúpaðan björtu skýi ― stíga niður frá himnum. Ég sá margar grafir opnast, og þeir sem dánir voru í Kristi risu upp, til að mæta Drottni í loftinu. Eftir það sá ég þá sem eftir lifðu, og voru í Kristi, hrifna upp til að mæta honum einnig í loftinu. Miklir skarar af íbúum jarðarinnar voru eftir skildir.
Strax eftir að burthrifningin hafði átt sér stað, sá ég einnig þá sem höfðu orðið eftir hér niðri, fara í kirkjugarðana til að rannsaka grafirnar, sem með krafti Guðs höfðu opnast. Stórir skarar af fólki ― fátækir og ríkir ― söfnuðust saman og ræddu um það, sem borið hafði við. Mæður grétu yfir burthorfnum börnum sínum, menn fylltust örvæntingu yfir konum sínum og fjölskyldum, sem horfið höfðu ― og konurnar yfir mönnum sínum sem horfnir voru. Það var stór hópur af fólki, og háreystin í þeim skar í eyrun.
Margir grétu yfir hjartaharðúð sinni og vantrú liðins tíma, og vegna þess að þeir höfðu hafnað Orði Guðs. Ég sá marga presta með allskyns játningar og sá hryggð á ásjónum þeirra, sumir reyndu að hugga fólkið. Svo fóru söfnuðirnir að atyrða presta sína, sem höfðu hlustað á prédikanir þeirra. Þeir börðu þá og spurðu hvers vegna þeir hefðu ekki verið hrifnir með þegar Drottinn kom?
Það var greinilegt að margir óskuðu þess nú að þeir hefðu hlýtt orði Guðs. Og margir sem höfðu verið í andstöðu við kenningu þeirra burthrifnu iðruðust þess nú að hafa ekkert gert með sannleika þess. Svo voru enn aðrir sem glöddust augljóslega yfir hvarfi Guðs barna, og reyndu að villa fólki sýn, með því að segja: „Það var djöfullinn sem hreyf þá burt!“
Fráfallið mikla
Nú breyttist sýnin. Ég sá fólk halda áfram venjum sínum og skemmtanalífi. Þeir virtust vera búnir að gleyma upphrifningu Guðs barna. Um allt sáust skemmtistaðir, upplýstir með marglitum ljósum, og fjöldi fólks dreif þangað. Stór auglýsingaspjöld héngu utan á veggjunum, og fyrir innan voru ungir menn og ungar stúlkur reykjandi ― og sem spiluðu á spil ― og var ósiðlega klætt.
Margar kirkjur voru gerðar að skemmtistöðum og drykkjukrám. Aðeins fáar voru eftir skildar og notaðar áfram til að boða Guðs orð í þeim og ég heyrði prestana hvetja söfnuðinn til að vera trúfasta og undirbúa sig fyrir að líða vegna Drottins Jesú Krists. Stundum heyrðist hljóma kröftugt amen frá einum og einum. En frá öðrum heyrðust blótsyrði og hæðnishlátur. Flestir gengu inn í kirkjuna með höfuðfötin, reyktu eða lásu dagblöðin ótruflaðir, meðan á guðþjónustum stóð.
Það sáust engin kvöldmáltíðarborð lengur, því það hafði Drottinn boðið að þess yrði neytt til komu sinnar. Og þar sem hann hafði þegar komið, var kvöldmáltíðarborðið horfið.
Vitnin tvö
Eftir þetta fylgdi mikið þrengingartímabil. Um leið sá ég tvo menn sem voru vitni Guðs. Annar þeirra var eldri maður, hvíthærður, hinn var mikið yngri, með dökkt hár. Báðir voru klæddir síðum, dökkum skikkjum úr striga. Þeir voru hetjulegir á að líta. Báðir höfðu belti um lendar sér og Biblíu í höndunum. Hin fögru andlit þeirra ljómuðu af undursamlegum friði. Vitni þessi gengu um meðal fólksins og vitnuðu um að hræðilegir tímar væru framundan, og sögðu að eini vegurinn til frelsis héðan í frá, væri vegur þjáninga, og fólk yrði að halda út vegna Drottins Jesú Krists. Þeir minntu fólkið á hvernig það hefði verið varað við í gegnum aldirnar, og það hefði lesið Guðs orð á dögum Nóa, og sögðu að ennþá meiri þjáningatímar væru framundan. Sumir trúðu þeim, en flestir hlógu að því sem þeir sögðu og ofsóttu eða deyddu þá fáu sem trúðu. Margir þeirra sem tóku við boðskapnum voru pyntaðir til dauða, og þeir fögnuðu mitt í þjáningum sínum vegna Krists, því að þeir trúðu orðum vitnanna um gleðina sem biði þeirra sem sigruðu. Aðrir sem tóku við trúnni voru varðveittir undir krafti Guðs frá því að vera deyddir, og gengu sjálfir um kring og boðuðu Guðs orð. Vitnin tvö héldu áfram að aðvara og uppörva þjóðirnar, en að nokkrum tíma liðnum hrópuðu þeir til Drottins, og báðu um hungursneyð yfir fólkið, og um leið brunnu kornakrarnir upp af ofsalegum hita. Um leið og þetta tímabil rann upp, réðist fólkið á vitnin tvö og vildi deyða þá. Og þegar það reyndi að deyða þá með vopnum, gekk eldur af munni þeirra, og eyddi þeim sem það ætluðu að gera.
Þar næst sá ég þessi vitni gera stórkostleg kraftaverk. Þeir töluðu til hafsins, og það varð strax að blóði. Þeir töluðu aftur og það komu þrumur og eldingar.
Andkristur og falsspámaðurinn
Nú sá ég undarlegt og viðurstyggilegt dýr stíga upp úr hafinu. Það hafði sjö höfuð og tíu stutt horn. Eitt af höfðum þess líktist ógurlegri slöngu, sem var hryllilega særð á hægri hlið, en sárið þornaði upp og læknaðist, en eftir varð stórt ör. Guðs Andi sýndi mér að þetta væri uppfylling á spádómnum í 1. Mós. 3,15, um að sæði konunnar (Kristur) myndi merja höfuð þess (Satan). ― Guðs Andi opinberaði mér um leið, að sverðið sem Kristur hafði marið höfuð þess með, væri sverð Andans, sem er Guðs orð. Fætur dýrsins voru líkir bjarndýrsfótum, og það hreyfði sig hljóðlaust.
Ég sá annað dýr stíga upp af jörðinni. Það líktist geithafri og hafði tvö lítil horn, og stóð það á afturfótunum.
Bæði þessi dýr höfðu mikið vald og gerðu mörg undur og tákn, þau gátu meðal annars kallað eld af himni. Fjöldi fólks fór að tilbiðja þessar einkennilegu verur. Þá vildi annað dýrið gera líkneski af því fyrra, með höfuðin sjö og hornin tíu, og var það gert.
Ég sá fólk ganga um og kaupa merki, mismunandi tegunda, verðleika og efni, og merki dýrsins og tölu þess. Tala þess var 666, og á oddunum uppi á tölustöfunum voru höggormshöfuð. Merki dýrsins virtust vera þrjú, eitt líktist ægilegum geithafri, annað var eins og höggormur og það þriðja líktist erni. Fólk bar merkin á ennum sér, á höndum eða á báðum stöðum. Í sumum tilfellum féll það á ásjónur sínar og tilbað líkneski dýrsins með höfuðin sjö. Þá skeði nokkuð undarlegt. Líkneski dýrsins fór að tala, og meðal annarra guðlöstunarorða sagði það: „Ég er Guð!“
Þeir sem ekki vildu taka við merki dýrsins, voru annað hvort sveltir í hel, eða urðu að þola hræðilegar pyndingar, með glóandi járni, hnífum, sverðum, hökum og spjótum. Angistaróp þeirra voru óskapleg. Hendur voru höggnar af sumum, af öðrum handleggir og fætur. Þeir sem ekki afneituðu Kristi, voru pyndaðir til dauða. En sumir gáfust upp eftir að hafa verið kvaldir um stund, og tilbáðu þá líkneski dýrsins. Þá voru sár þeirra læknuð og fengu þeir kraft frá dýrinu, sem gerði kraftaverk á þeim.
Nokkrir þeirra tóku við merki dýrsins, en neituðu að taka við tölu þess. Þá voru þeir pyndaðir þangað til þeir tóku við tölunni líka. Þá voru sár þeirra einnig læknuð og fengu þeir kraft frá dýrinu. Því næst sá ég bæði dýrin í mannslíki.
Píslarvættisdauði vitnanna tveggja og upphrifning þeirra
Þegar vitnin tvö höfðu fullkomnað sitt verk, voru þeir hálshöggnir, og líkömum þeirra fleygt út á strætin, sem voru full af fólki, og lágu þar blóðstokkin í göturykinu. Og fólkið kom fagnandi yfir því að vitnin tvö voru dauð, og í staðinn fyrir að jarða þau, var traðkað á þeim og sparkað í höfuð þeirra. Þá bar nokkuð undursamlegt við. Höfuðin komu aftur á líkamina og þeir risu á fætur. Um leið birtist stórt og fagurt ský, og hljómmikil raust barst úr skýinu: „Stígið upp hingað!“
Vitnin tvö stigu upp til himins fyrir framan augun á óvinum þeirra og ég sá marga, sem höfðu verið kvaldir til dauða, og verið skildir eftir þar sem þeir lágu, lifna aftur og fylgja vitnunum tveimur í burthrifningunni.
Allt í einu grúfði svarta myrkur um alla jörðina og það komu þrumur, eldingar og jarðskjálftar, og ég sá byggingar hrynja saman og heyrði um leið grát, vein og formælingar svo að ég fylltist hræðslu.
Síðan sá ég inn í himininn og sjö fagra engla, og hélt hver engill á skál í hendinni.
Önnur hrifningin í Andanum
Hún varaði 12 klukkustundir og 15 mínútur, frá kl. 22:30 um kvöldið 10. ágúst, til kl. 10:45 um morguninn 11. ágúst.
Ég var aftur hrifin í Anda og sá í sýn mikið haf, sem glampaði eins og ís í tunglsljósi (glerhafið). Ég sá menn standa á hafinu, sem höfðu sigrað dýrið í þrengingunni miklu, sem ekki höfðu tekið við merki dýrsins eða tölu þess. Þeir héldu á hörpum í höndunum, og sungu Guði lof og dýrð. Ég heyrði orðaskilin:
Mikil og undursamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú hinn alvaldi! Réttlátir og sannir eru vegir þínir. Þú ― konungur hinna heilögu, þínir réttlátu dómar hafa opinberast!
Ég sá aftur englana sjö, sem ég sá við endirinn á fyrstu sýninni, ― klædda hreinum, hvítum kyrtlum, með gullbelti um bringuna.
Reiðidómar Guðs
Og ég sá lifandi veru, sem líktist manni, sem fyllti gullskálar englanna sjö með reiði Guðs. Fyrir ofan mig sá ég musteri, sem var umvafið ljóma, birtu og dýrð. Þá heyrði ég kallað hárri röddu, sem sagði: „Tíminn er kominn! Farið og hellið úr reiðiskálum Guðs yfir jörðina.“ Þá gengu englarnir burt.
Fyrsti engillinn hellti úr sinni skál, og reiðidómar Guðs féllu niður á jörðina eins og ský. Þegar skýið kom niður á jörðina, komu ill og hættuleg kaun á þá sem báru merki dýrsins.
Og annar engillinn hellti úr sinni skál yfir hafið, og það varð að blóði. Ég sá skip farast og áhafnir þeirra.
Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í ár og uppsprettur. Þær urðu líka að blóði, og ég heyrði raust sem sagði:
„Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna, og þú hefur gefið þeim blóð að drekka, maklegir eru þeir þess.“
Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina til að brenna mennina í eldi, og mennirnir stiknuðu í eldi og lastmæltu nafni Guðs.
Og hinn fimmti hellti úr sinni skál, og mennirnir huldust myrkri. Ég heyrði stunur þeirra og grát, og lastmæltu þeir Guði í kvölum sínum.
Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir breitt fljót, og vatnið í því þornaði upp, og varð eins og þurrt land.
Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið, og ég heyrði sömu raustina segja: ― „Það er fram komið!“
Og ég sá jörðina skjögra fram og aftur eins og drukkinn mann, og ég heyrði skerandi vein.
Satan bundinn í þúsund ár
Nú sá ég fyrsta engilinn ― með stóran lykil í hendinni ― og tók hann dýrin tvö og kastaði þeim í eldsdíkið. Svo greip hann hinn mikla höggorm, sem er Satan, og kastaði honum niður í einhvern myrkan stað fullan af reyk, og mér var sagt að þarna ætti hann að vera í þúsund ár.
Allir, sem liðið höfðu píslarvættisdauða meðan á þrengingunni miklu stóð, vegna Drottins Jesú Krists, ríkja nú með honum á jörðinni, og ég sá stóra skara af þeim stíga niður til jarðar, og stíga upp aftur til himins til að gefa honum sem sat í hásætinu dýrðina.
Og er þúsund árin voru fullnuð, var Satan leystur úr fangelsi sínu, og var hann í höggormslíki. Mikill fjöldi fylgdi honum, og þeir reyndu að deyða Guðs heilögu, sem á jörðinni voru. Þá féll eldur af himni ofan, og eyddi þeim, og Satan sem ríkt hafði yfir þeim, var kastað í eldsdíkið.
Endir veraldar
Eftir þetta sá ég bláan himinn rifna endanna á milli, og vafinn saman, eins og þegar einhver vefur saman pappír. Og hann sviptist burtu eins og þegar bókrolla er vafin saman. Jörðin hvarf og ég sá stórt tómarúm þar sem hún hafði verið.
Og ég sá stóra skara af körlum, konum og börnum af öllum kynkvíslum. Þeir höfðu verið dánir en risu nú upp og stóðu frammi fyrir hásæti Drottins Jesú Krists. Nöfn þeirra fundust skrifuð í lífsbókinni, ― lífsbók Lambsins.
Og ég sá hafið skila aftur hinum dauðu, sem í því voru, og Helja skilaði þeim sem í henni voru, og allir voru dæmdir, sem ekki fundust skrifaðir í lífsbókinni. En ég sá engin börn á meðal þeirra, sem voru dæmdir.
Þar næst sá ég nýja jörð, undur fagra og nýjan himin, í staðinn fyrir þann sem svipt var burt. Í þessum nýja himni var engin sól, tungl eða stjörnur. Í staðinn fyrir þann gamla sem svipt hafði verið burt, var komin ný, undurfögur hvelfing, sem ljómaði eins og gull. Það var engin nótt á þessari nýju jörð, heldur ávallt bjart, og fólkið sem þar bjó, var fyllt gleði og friði.
Brúður Krists
Nú breyttist sýnin, og ég var borin af dýrðlegum engli hærra og hærra í gegnum sex himna og í þann sjöunda. Þar sá ég mikinn múg af fólki með kórónur á höfðum, klædda hvítum, skínandi kyrtlum og með pálma í höndum, og sungu þau Guði dýrð.
Engillinn sagði mér að þetta væri Brúður Krists, sem væri umvafin og fyllt Guðs dýrð. Þau áttu fallegar hallir í mismunandi litum, og einnig þær ljómuðu af dýrð Guðs. Og frá þeim minnsta til þess stærsta leituðu þau aðeins eftir einu ― að gefa Guði dýrðina!
Kvalir hinna dæmdu
Eftir að mér hafði verið sýnd dýrð himinsins, sá ég skelfingar eldhafsins, og Satan sem hafði ríkt yfir miklum fjölda fólks, sem höfðu valið að þjóna honum meðan þeir lifðu á jörðinni, en höfðu hafnað Drottni Jesú Kristi. Nú voru þeir eilíflega dæmdir til að kveljast í þessu hræðilega eldhafi, með honum sem þeir höfðu valið að þjóna.
Þriðja hrifningin í Andanum
Hún stóð yfir í hálfa klukkustund, frá kl. 21:00 til 21:30, 11. ágúst 1919.
Sverð Andans
Ég var aftur hrifin í Anda, og sá Drottin standa fyrir framan mig, með naglaförin á höndum og fótum, og merki eftir þyrnana á enni sér.
Þegar ég kraup við fætur hans, sagði hann: „Ég vil láta þennan boðskap, sem ég hef talað til ambáttar minnar, ganga út til norðurs og suðurs, og til austurs og vesturs. Margir munu segja að það hafi verið bætt við mitt orð, og aðrir að það hafi verið tekið burt eitthvað af orðum mínum. En ég segi þér:
„Þetta er mitt Orð, sem er sverð Andans og Andi spádómsgáfunnar.“
Sylvía Haraldsdóttir þýddi.
Þýtt úr „Hjemmets ven.“