Það er sorgleg staðreynd að margir eru hættir að fara í kirkju, á samkomur, í heimahópa eða eiga samfélag vegna þess að eitthvað hefur komið upp í samskiptum við önnur trúsystkini. Við verðum að skilja að við erum öll mannleg, við búum í föllnum heimi og erum öll að berjast trúarinnar góðu baráttu. Þessi öld Laódíkeu er síðasta kirkjuöldin og hið illa sem og hið góða er að ná fullum þroska. Það hefur aldrei verið jafn mikið í boði og margt sem getur dregið athyglina frá því að vera í Drottni, bæn, orðinu og í samfélagi við aðra.
Það eru mörg tákn á lofti um að við séum á síðustu tímum og að það styttist í endurkomu Jesú Krists. Hvað segir Biblían okkur að við eigum að gera þegar við sjáum þetta eiga sér stað ?
Hebreabréfið 10:25
Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.
Hver er ástæðan fyrir því að við erum áminnt sérstaklega um að koma saman til að uppörva og styrkja hvort annað, og þá sérstaklega þegar dagurinn nálgast? Það er vegna þess að óvinurinn gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur gleypt og fellt. Það eru mörg vers í orðinu sem fjalla um að halda vöku okkar svo að við missum ekki af þegar Drottinn kemur að sækja sitt fólk.
Opinberunarbókin 3:3
Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig.
Við sjáum glöggt í dýraríkinu hvernig rándýr veiða sér bráð. Þetta er ekki svo ólíkt því sem á sér stað í hinu andlega. Horfum bara á hvernig óvinurinn kemur upp á milli systkina og veldur sundrung, ósætti og brýtur þannig upp hópa svo að bræður og systur hætta að koma saman, einangra sig og eru þá orðinn auðveld bráð fyrir rándýrið og eftir stendur einstaklingur sem er jafnvel fullur af reiði og biturleika.
Það er fátt alvarlegra en ósætti og deilur á milli systkina sem ekki eru útkljáð hratt og vel í auðmýkt og fyrirgefningu. Værir þú tilbúin að mæta Jesú ef þú ert ekki búin að fyrirgefa eða átt í deilum við trúsystkini? Eins og ég sagði þá er fátt alvarlegra og Biblían er mjög skýr varðandi þetta.
Matteusarguðspjall 5:21-25
Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi. -22- En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis. -23- Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, -24- þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. -25- Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi. -26- Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.
Matteusarguðspjall 5:21-25
Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. -15- En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.
- Ef Jesús kæmi aftur í dag, værir þú tilbúin að mæta honum?
- Hvernig hefur þú talað um systkini þín undanfarið?
- Er eitthvað í þínu lífi gagnvart bróður eða systur sem þú átt eftir að fyrirgefa?
Efesusbréfið 4:29
Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.
Það skiptir ekki máli hvort þú teljir að þetta sé allt hinum að kenna. Matteus 25:23 segir skýrt að ef þú veist að einhver bróðir eða systir hefur eitthvað á móti þér, skaltu ekki koma fram fyrir Drottinn fyrr en þú hefur gert allt í þínu valdi til að leysa málið. Það er ekki alltaf hægt að sættast, en vertu viss um að þú sért búin að gera þinn hluta, og ef það tekst ekki í fyrstu tilraun, taktu þá með þér einhver trúsystkini sem þú treystir til að reyna aftur. Þú vilt ekki standa frammi fyrir Drottni með ófyrirgefningu í hjartanu gagnvart bróður eða systur.
Matteusarguðspjall 18:16
Ef bróðir þinn syndgar gegn þér , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. -16- En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna. -17- Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.
Ef þú ert búin(n) að einangra þig og jafnvel ekki búin(n) að mæta í kirkju, á samkomu eða í samfélag í langan tíma vegna þess að eitthvað kom upp á, hvet ég þig til að taka ákvörðun í dag um láta óvininn ekki binda þig lengur heldur eiga samfélag reglulega við aðra trúaða og taka á móti uppörvun og styrk. Það er stutt í að Jesús komi aftur, enginn veit sinn dag eða stund, þannig að tíminn gæti verið enn styttri hjá sumum og því má engan tíma að missa að gera hreint fyrir sínum dyrum svo að samviskan dæmi okkur ekki.
Fyrsta Jóhannesarbréf 3:21
Þér elskaðir, ef hjartað dæmir oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs.
Það er margt annað sem veldur því að einstaklingur hættir að eiga samfélag, en það sem hefur verið skrifað hér að ofan er að mínu mati ein af alvarlegri ástæðunum og eitthvað sem verður að bregðast hratt við. Því lengri tími sem líður, því erfiðara getur verið að leita sátta og fyrirgefa. En látum tvær dæmisögur Jesú sýna okkur nokkrar aðrar ástæður sem gætu átt við þig og mikilvægt er að bregðast strax við.
Markúsarguðspjall 4:5-20
Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá, -4- og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp. -5- Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. -6- En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. -7- Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt. -8- En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt. -9- Og hann sagði: Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri! -10- Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar. -11- Hann svaraði þeim: Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum, -12- að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið. -13- Og hann segir við þá: Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu? -14- Sáðmaðurinn sáir orðinu. -15- Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð. -16- Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það, -17- en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar. -18- Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið, -19- en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt. -20- Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.
Lúkasarguðspjall 14:16-24
Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. -17- Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. -18- En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. -19- Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. -20- Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. -21- Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. -22- Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm. -23- Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. -24- Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.
Guð blessi þig!