Að dæma eða ekki dæma?
Guð lagði á hjarta mitt að undirbúa kennslu varðandi að dæma eða ekki dæma. Ég tók eftir að margir kristnir voru mjög dómharðir gagnvart t.d. Kamillu Harris í forsetaframboði Bandaríkjanna. Vissulega var augljóst á stefnumálum flokksins að þar var eitt og annað sem ekki var rétt samkvæmt Orði Guðs, en gefur það okkur leyfi til að dæma? Segir ekki Biblían einmitt að við eigum að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur?
Nú eru einnig kosningar framundan á Íslandi og þá setjast margir í dómarasæti heima í stofu og rífa niður fólkið sem er að bjóða sig fram, þetta má ekki vera svona, því með þeim dómi sem þú dæmir munt þú dæmdur verða. Þetta á einnig við um öll önnur tilvik, ert þú að dæma bróður eða systur, ert þú að eitra með vörum þínum þegar þú talar illa um aðra? Ég mæli með kennslunni sem ég var að setja inn á síðuna en þar er hægt að hlusta á upptöku þar sem ég fór ítarlega í þetta efni í heimahópnum okkar.
Efesusbréfið 4:29
Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.