Skírnin er fyrsta skrefið í hlýðni eftir að þú hefur sett trú þína á Jesú. Hún er opinber yfirlýsing um trú þína og vitnisburður um hvernig Hann hefur breytt lífi þínu. En hvað segir Biblían um skírnina og hvers vegna er hún svona mikilvæg?

Byrjum á því að lesa það sem Jesús endaði á að segja lærisveinunum áður en Hann fór til himna.

Matteusarguðspjall 28:18-20

Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. -19- Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, -20- og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Hvað er skírn?

Skírnin er ytra tákn innri umbreytingar. Hún táknar dauða, greftrun og upprisu Krists og hvernig trúaðir fara frá dauða yfir í líf þegar þeir setja trú sína á hann. Þegar við skírumst lýsum við opinberlega yfir að við höfum treyst Jesú Kristi til hjálpræðis og að við ætlum að fylgja Honum af öllu hjarta.

Skírnin er…

  • Yfirlýsing að hafa tekið á móti fagnaðarerindinu og gert Jesús Krist að Drottni og frelsara lífs okkar.

  • Til fyrirgefningar syndanna og að grafa gamla manninn.

  • Hlýðni við Orð Guðs til að fá að gjöf Heilagan anda.

  • Leið til að gefa Guði dýrðina og segja öðrum frá Honum.

  • Tákn sáttmálans sem þú ert komin/n í með Jesú Kristi.

Skírn í Jesú nafni!

Skírnin er mjög mikilvæg athöfn í Biblíunni og fylgdi ótvírætt með í frásögn þegar lærisveinarnir voru að boða fagnaðarerindið. Einnig er mjög mikilvægt að skíra rétt og samkvæmt þeirri forskrift sem okkur er gefin í Orðinu. Við lásum í versinu í byrjun að það ætti að, “skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda“. Pétur einn af lærisveinunum tólf var viðstaddur þegar Jesús var að kenna þeim þetta og við skulum sjá hvernig hann túlkaði þetta strax í kjölfarið.

Postulasagan 2:38

Pétur sagði við þá: Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.

Postulasagan 10:47-48

Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu-45- Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana, -46- því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð.Þá mælti Pétur: Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér. -48- Og hann bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists

Pétur skildi að Guð er einn og að hann heitir Jesús Kristur. Því sagði hann þeim ekki bókstaflega að skírast í nafni “föður, sonar og heilags anda”, heldur í nafninu á Guði sem er Jesús Kristur. Við sjáum svo síðar í Postulasögunni að Páll var með sömu opinberun og Pétur. Páll lét einnig skíra í Jesú nafni.

Það er einnig áhugavert í versinu hér fyrir neðan hvernig Páll fer beint í að spyrja þá hvort þeir séu skírðir þegar þeir sögðust ekki vera með Heilagan anda. Því fyrirheitið um að fá Heilagan anda að gjöf er tengt því að taka skírn.

Postulasagan 19:1-5

Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina. -2- Hann sagði við þá: Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú? Þeir svöruðu: Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til. -3- Hann sagði: Upp á hvað eruð þér þá skírðir? Þeir sögðu: Skírn Jóhannesar. -4- Þá mælti Páll: Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú. -5- Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.

Ég geng persónulega svo langt að segja að ef fólk hefur ekki verið skírt í nafni “Drottins Jesú Krists”, ætti það að leita Guðs og íhuga að taka skírn að nýju. Við sjáum vel að lærisveinarnir skírðu með þessum hætti og það er aðeins eitt nafn sem getur frelsað okkur og er því ekki að furða að djöfulinn sé búin að setja inn villu í skírnina og taka út nafnið í skírninni í mörgum kirkjudeildum.

Postulasagan 4:11-12

Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn. -12- Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.

Niðurdýfing við játun

Biblían kennir okkur að til að skírast þá þurfum við að vera komin með vit til að játa að við trúum af öllu hjarta. Það getum við ekki gert sem ungabörn og er því ungabarnaskírn ekki samkvæmt fyrirmynd Biblíunnar. Einnig sjáum við bæði þegar verið var að skíra Jesú og hirðmanninn frá Eþíópíu að þeir stigu ofan í vatn og eftir skírnina upp úr vatninu.

Postulasagan 8:35-38

Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú. -36- Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast? -37- Filippus sagði : “Ef þú trúir af öllu hjarta , er það heimilt.” Hirðmaðurinn svaraði honum: “Ég trúi, að Jesús Kristur sé sonur Guðs.” -38- Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.

Matteusarguðspjall 3:16

En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu.

Af hverju ættir þú að láta skírast?

Skírnin er fyrir hvern þann sem hefur tekið persónulega ákvörðun um að fylgja Jesú Kristi. Hún er nauðsynlegt hlýðnisspor og opinber yfirlýsing trúar með fyrirheiti að þeir sem taka þetta skref muni fá að gjöf Heilagan anda sem er pantur okkur og trygging um eilíft líf, mikilvægasta gjöf Guðs til mannsins.

Fyrra Pétursbréf 3:21-22

Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists,-22- sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Viltu taka skírn?

Hafðu samband við okkur og við leiðum þig í gegnum þetta mikilvæga trúarskref. Við skírum reglulega á Hallgerðshólum í notalegum heitum potti, en það er í raun hægt að taka skírn hvar sem vatn er til niðurdýfingar.

Fyrirheitið

Það mikilvægasta sem við getum eignast í þessu lífi er Heilagur andi og persónulegt samfélag við Drottinn okkar Jesú Krist. Pétur segir okkur að ef við tökum skírn munum við fá að gjöf Heilagan anda. Þetta er fyrirheiti sem við skulum vera viss um að fara ekki á mis við og taka ákvörðun um að fylgja þeim fyrirmælum sem Biblían kennir okkur. Hér eru nokkur vers að lokum um Heilagan anda ykkur til uppörvunar.

Postulasagan 1:8

En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.

Efesusbréfið 1:13-14

Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið. -14- Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.

Guð blessi þig!