Hinn leyndi kraftur bænar og föstu

Hinn leyndi kraftur bænar og föstu

Bæn og fasta

Ég hef ákveðið að skrifa grein eða réttara sagt úrdrátt úr bókinni, “The Hidden Power of Prayer & Fasting“, fyrir alla þá sem ekki hafa tök á að panta sér bókina og lesa sjálf. Því það að er mitt álit að þessi bók sé ein af þeim bókum sem allir kristnir ættu að lesa. Þetta er ein besta bók sem ég hef lesið og ég finn mig knúinn til að skrifa um þau atriði sem töluðu sterkast til mín sem og að birta beint atriði úr bókinni sem geta hjálpað þér kæri lesandi að komast nær Guði og fá gegnumbrot inn í þitt líf.

Mín reynsla

Áður en ég fer í efnið vil ég segja að ég er ekki að tala bara út frá því sem ég hef lesið því ég hef fastað reglulega í gegnum mína trúargöngu með Guði sem nú spannar orðið meira en 22 ár. Ekki það að ég hafi fastað jafnt og þétt allan tímann og í raun fastað miklu minna en ég tel nú nauðsynlegt fyrir mig og alla sem trúa á Jesú Krist. Ég hef prófað ýmsar föstur á minni göngu, sólahringsföstur, 3ja daga föstur með og án vatns, og nokkrar útgáfur af tuttu og 21 dags Daníelsföstum. Fyrir stuttu kom mjög sterkt til mín að fara inn í föstu, blandaða föstu sem ég hafði ekki farið í áður (aðeins vatn ákveðna daga, aðeins grænmeti, baunir og hafrar ákveðna, og svo hefðbundin Daníelsfasta ákveðna daga). Ég fékk skýra leiðsögn hvernig fastan ætti að vera og hver bænarefnin ættu að vera í röð eftir mikilvægi hvers og eins, hvernig ég ætti að fara á ákveðna staði og biðja, taka vald og fleira.

Það er því af reynslu að ég segi ykkur að fasta er gríðarlega öflugt vopn til að sigra vígi, fá gegnumbrot, lækningu og lausn inn í líf okkar og fyrir því sem við erum að biðja fyrir. Fastan hefur gríðarleg áhrif á þína persónulegu göngu með Guði, þar sem þú verður mun næmari fyrir anda Guðs og því sem hann vill segja þér, og eitt það besta er að veldi óvinarins nötrar þegar við föstum, sérstaklega þegar margir trúaðir koma saman og gera sáttmála um að biðja og fasta markvisst inn í ákveðna hluti og aðstæður.

Fyrirmyndir

Ég heyri ekki oft minnst á föstur í kirkjunni, það er eins og óvinurinn hafi náð að hylja yfir þetta kröftuga vopn. Þetta er fórn og það getur verið erfitt að fasta en það getur líka verið auðvelt ef Guð leiðir mann inn í sérstaka föstu. En af hverju að fasta? Er það nauðsynlegt?

Jesús Kristur þegar hann gekk um í holdi á jörðinni fyrir rúmum 2000 árum síðan er okkar aðal og helsta fyrirmynd. Hann hóf þjónustu sína á því að vera skírður af Jóhannesi skírara og fylltist Heilögum anda, en Hann fór ekki strax út að þjóna, nei hann fór fyrst og vann andlega sigurinn gegn djöflinum í eyðimörkinni með því að fasta og biðja í 40 daga, eftir það fór hann út í krafti andans.

Matteusarguðspjall 3:16

En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig.

Matteusarguðspjall 4:1-2

Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum. -2- Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður.

Lærisveinarnir föstuðu reglulega og leituðu Guðs, við sjáum það í gegnum alla Postulasöguna. Af hverju gerðu þeir það? Jú þeir vissu að í gegnum allar ritningarnar var fasta notuð til að nálgast Guð, fá leiðsögn og gegnumbrot inn í erfið málefni og samkvæmt orðum Jesú til að hafa vald yfir illum öndum, líka þeim sterkustu.

Matteusarguðspjall 17:21

Jesús svaraði: Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín. -18- Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu. -19- Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út? -20- Hann svaraði þeim: Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. -21- En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.

Hér er helstu dæmin í Biblíunni um inngrip Guðs á stórkostlegan hátt eftir að fólk fastaði og bað:

  • Sagan um Ester og hvernig hún kallaði alla Gyðinga í Súsa til föstu í þrjá sólahringa án vatns og matar og fékk fullnaðarsigur yfir Haman og þjóðinni var forðað frá útrýmingu.
  • Sagan um Jósafat þegar Móabítar, Ammonítar og fleiri þjóðir komu gegn Ísrael með gríðarmikinn her. Jósafat varð hræddur og sá að í mannlegum mætti ætti hann engan möguleika á sigri. Hvað gerði hann? Það fyrsta sem kom upp í huga hans líklega sem eina vonin fyrir sigri, hann lét boða sameiginlega föstu um alla Júda og Guð svaraði kallinu og þeir unnu fullnaðarsigur með því einu að lofa Guð í söng á meðan óvinaþjóðirnar snerust gegn hvor annarri og drápu þar til enginn var eftir.
  • Davíð konungur fastaði oft eins og við lesum um bæði í sögu hans og sálmunum.
  • Daníel fastaði reglulega og með ýmsum hætti eins og við lesum í Daníelsbók. Til að mynda fastaði Daníel á alla dýrindisfæðu í 21 dag sem varð til þess að hann fékk heimsókn frá Gabríel engli sem hafði staðið í ströngu í þennan 21 dag við að berjast við verndarengill óvinarins yfir Persíu til að komast til Daníels með orð frá Guði.
  • Sagan um Ezra sem var búin að vitna um að Guð væri með þeim sem leita Hans, þeim til góðs. Þegar Ezra og herlið hans stóð frammi fyrir erfiðum bardaga fastaði hann og herliðið og Guð bænheyrði.
  • Hvernig öll Nínive fastaði, jafnvel dýrin voru látin fasta, eftir að hafa heyrt viðvörunarorð frá Jónasi spámanni og þannig sefaði reiði Guðs og forðaði sér frá dómi.
  • Svo höfum við auðvitað Móse og Jesú sem voru fyrirrennarar hins fyrri og síðari sáttmála, þeir föstuðu báðir í 40 daga.
  • Lærisveinarnir föstuðu reglulega
  • Anna spákona þjónaði Guði með bæn og föstu allt sitt líf eftir að hún varð ung ekkja og hún þekkti Drottinn þegar hún sá hann ganga á móti sér.

Ef þessar fyrirmyndir okkar í Biblíunni föstuðu til að standa gegn árásum óvinarins er þá ekki augljóst að þetta á að vera fastur hluti af okkar lífi í dag. Það eru einnig margar öflugar trúarhetjur síðari tíma sem gerðu sér grein fyrir að þetta væri nauðsynlegur þáttur í að lifa sigrandi lífi og hafa raunverulegan kraft til að þjóna Guði.

  • Martin Lúther sem þjóðkirkjan er fædd út frá fastaði reglulega og þegar hann var að þýða fornu handritin, Biblíuna yfir á þýsku, þá gerði hann það með reglulegum bænum og föstu.
  • John Calvin og John Knox föstuðu reglulega og í raun allir öflugustu trúboðarnir frá þessum tíma.
  • Charles Finney skrifaði í ævisögu sína að hann fastaði reglulega. Hann sagði að í hvert skipti sem hann fann eins og það væri að minnka andlegur styrkur hjá honum fór hann rakleiðis í þriggja daga föstu. Þetta hafði þau áhrif að þegar Charles Finney kom inn fyrir borgarmörk þeirrar borgar sem hann var að fara að þjóna í hófu borgarbúar að gráta vegna þess að andi iðrunar féll yfir.
  • John Wesley trúði sterkt á föstu og bæn. Hann fastaði alla miðviku- og föstudaga. Hann var þess fullviss að fasta ætti að vera algjör skylda fyrir þá sem þjóna Drottni og hann fór fram á það að þeir sem vildu þjóna með honum ættu að fasta með honum.
  • Charles Spurgeon, David Brainard, Rees Howells hvöttu allir til og föstuðu reglulega. Sagan um Rees Howells er sérstaklega mögnuð því Guð kallaði hann og þá sem með honum voru til föstu og bæna á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar. Guð gaf þeim sérstök fyrirmæli til að biðja inn í og svo heyrðu þau tíðindin af stríðinu í útvarpinu næsta dag af því hvernig sömu hlutir og þau voru að biðja fyrir voru að ganga í uppfyllingu.
  • Derek Prince hinn virti kennari og trúboði fastaði einu sinni í viku. Líf hans og þjónustu var fullt af kraftaverkum og góðum ávöxtum.

Hér sjáum við dæmi um einstaklinga sem þjónuðu Guði og kraftaverk, undur og tákn fylgdu. Jesús er sá sami í gær í dag og um aldir og dagar kraftaverka eru ekki liðnir. Það er sérstök hvatning á okkur í Hebreabréfinu 13. kafla að líkja eftir trú þeirra leiðtoga sem á undan fóru svo að við einnig getum starfað í sama krafti. Þetta gerist ekki að sjálfu sér, ef við lifum ekki samkvæmt Orðinu og þeim leiðbeiningum sem Jesús hefur gefið okkur, getum við ekki ætlast til þess að hafa kraft andans. Það er eins og segir í Lúkasarguðspjalli 6.kafla, ef við gætum gert öll þau kraftaverk sem Jesú gerði án þess að leggja niður okkar líf, biðja og fasta þá værum við búin að finna auðveldari leið en meistari okkar til að sigra hið illa og þannig er það ekki. Ef Jesús þurfti að taka sig frá reglulega til að biðja og fasta, þá þurfum við það líka!

Lúkasarguðspjall 6:40

Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.

Markúsarguðspjall 16:17-18

En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, -18- taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.

Af hverju eigum við að fasta?

  1. Við föstum í hlýðni við Guðs Orð.
  2. Við föstum til að auðmýkja okkar frammi fyrir Guði.
  3. Við föstum til að sigrast á freistingum og því sem heldur okkur frá krafti Guðs.
  4. Við föstum til að hreinsa okkur og endurnýja heit okkar við Drottinn.
  5. Við föstum til að verða veikburða svo Drottinn verði sterkur í okkar lífi.
  6. Við föstum til að leysa út smurningu Drottins til að vilji Hans gangi fram.
  7. Við föstum á neyðartímum, þegar við nauðsynlega þurfum að Guði grípi inn í.
  8. Við föstum eftir leiðsögn inn í mikilvægar ákvarðanir.
  9. Við föstum til að öðlast skilning og opinberanir.

Ávinningurinn fyrir þig af því að fasta

  1. Þú ert að auðmýkja þig frammi fyrir Drottni og segja ég get þetta ekki án þín.
  2. Þú færð rétt sýn á lífið og það sem skiptir máli.
  3. Þú sérð jafnvægi koma inn þar sem hefur ríkt ójafnvægi eða ófriður.
  4. Þú sérð eigingirni og stolt skolast burt.
  5. Þú verður mun næmari fyrir anda Guðs og leiðsögn Drottins fyrir líf þitt.
  6. Þú sérð skýrar hverjir veikleikar þínir eru og Guð getur átt við þá.
  7. Þú öðlast meiri sjálfstjórn, gefur þér meiri tíma til að hugsa áður en þú talar eða bregst við.

Ávinningurinn fyrir Guðs ríkið af því að fasta

  1. Við fáum opinberanir á því hvað við erum að eiga við og getum beðið markvisst sem einstaklingar eða kirkja.
  2. Við köllum niður lækningu og réttlæti frá Guði yfir landið okkar, bæjarfélög, fjölskyldur, kirkjur.
  3. Við drögum niður áþreifanlega nærveru Guðs sem hefur áhrif á umhverfi okkar.
  4. Við biðjum inn í erfiðar aðstæður og fáum bænasvör.
  5. Við fáum guðlega bendingu og leiðsögn með í hvaða átt skal halda sem líkami Krists á okkar svæði.
  6. Við sigrum óróleika og vöxum í öryggi og friði Drottins.
  7. Við endurnærumst í anda, sál og líkama.
  8. Við styrkjumst í Guði sem heild og sem einstaklingar.
  9. Þjónusta okkar varir líkt og lækur sem aldrei þornar upp.
  10. Við höfum áhrif á yngri kynslóðirnar sem sjá okkur fasta og biðja.
  11. Við endurreisum það sem óvinurinn hefur brotið niður og tökum til baka töpuð landsvæði.

Þessi grein er mikil stytting á bókinni “The Hidden Power of Prayer & Fasting” sem ég mæli með að allir kristnir ættu að panta sér og lesa. En ég fann mig knúinn til að skrifa úrdrátt til að hjálpa þeim sem t.d. geta ekki lesið ensku, ég ákvað einnig að lesa upp greinina og hafa hana á hljóði fyrir þá sem finnst betra að hlusta, því mér finnst þetta efni bænar og föstu vera það mikilvægt að við verðum sem líkami Krists á Íslandi að taka okkur saman á þessu sviði og gera það sem okkar fyrirmyndir gerðu til að ganga fram í raunverulegum krafti andans fyrir Jesú Krist.

Vitnisburður úr bókinni og lífi Mahesh Chavda

Hvað er svarið fyrir Stevie?

Fljótlega eftir að Mahesh Chavda tók við Jesú hóf hann að starfa við umönnun á heimili fyrir mjög veik börn, þarna voru andlega veik börn, börn með heilaskaða, Downs og fleira. Aðstæður voru hræðilegar og Guð kallaði Mahesh þangað til að elska þessi börn sem engin vildi. Stevie var sértaklega erfitt tilfelli en hann var með Downs heilkenni og var með áráttuhegðun að berja sig í andlitið. Starfsfólkið og læknarnir voru búin að reyna allt, raflostameðferð, binda hendur Stevie og fleira, en ekkert virkaði. Mahesh spurði því Drottinn.

Þú sendir mig hingað til að elska þessi börn. “Hvað er svarið fyrir Stevie?”

Mjög greinilega heyrði Mahesh í Heilögum anda segja, “Þetta kyn verður ekki rekið út nema fyrir bæn og föstu!”

Við þekkjum þetta vers úr Biblíunni en á þessum tímapunkti var Mahesh nýr í trúnni og hafði ekki heyrt né vissi að þetta væri í Biblíunni. Mahesh rannsakaði þetta og fór svo inn í föstu leidda af andanum þar sem hann drakk ekkert vatn fyrstu þrjá dagana, en svo fékk hann leyfi til að drekka vatn þar til 14 daga föstu var lokið, en þá sagði Drottinn, “Farðu núna og biddu fyrir Stevie”. Þegar hann mætti á vaktina næsta dag sagðihann, “Í Jesú nafni, þú andi limlestingar, slepptu honum núna í Jesú nafni”. Við þessa bæn tókst Stevie á loft og kastaðist tvo og hálfan metra og í vegginn á herberginu, þar sem líkami hans hékk í loftinu um einn metra frá jörðunni. Svo rann hann niður á gólfið með miklu andvarpi og herbergið fylltist af hræðilegri lygt eins og af rotnum eggjum og brennisteini sem svo fjaraði út. Stevie fékk fullkomna lausn og í fyrsta skipti þreifaði hann mjúklega á andliti sínu og svo fór hann að gráta af gleði.

Það eru mun fleiri vitnisburðir í bókinni, eins og þegar Mahesh var að þjóna í Afríku og einn öflugast seiðkarl svæðisins kom á samkomuna til að stoppa Mahesh, allir pastorarnir voru logandi hræddir við seiðkarlinn því þeir vissu að hann gæti lagt á þá bölvun sem gæti jafnvel dregið þá til dauða. Mahesh var að þjóna og var nýverið búinn að vera í langri föstu. Þegar Mahesh koma að seiðkarlinum í fyrirbæninni var hann ekkert með neitt sérstakt að segja, það eina sem hann sagði var bara,”Guð blessaðu hann”, kraftur Guðs kom yfir seiðkarlinn með þvílíkum krafti að hann slengdist allur til og gat ekki hreyft sig. Seiðkarlinn kom síðar og vitnaði fyrir pastorunum að hann hefði aldrei séð slíkan kraft og gaf Guði líf sitt. Það er nefnilega lífið sem við lifum sem skiptir mestu máli ekki endilega nákvæmlega hvaða orð við notum.

Það sem þetta sýnir okkur er að illu andarnir hræðast þá sem biðja og fasta, því þeir vita að það er gríðarlegt vopn gegn þeim. Engin furða að djöfullinn sé búin að vinna markvisst að því að láta kirkjuna gleyma því að fasta. Vekjum upp þennan mikilvæga sannleika fyrir líkama Krists í dag og tökum til baka það sem óvinurinn er búin að stela frá okkur og kirkjunni því ↓

Síðara Korintubréf 10:3-6

Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt,  -4- því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi. -5- Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist. -6- Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin.

Guð blessi þig!

– Sigurður Júlíusson

Bæn og fasta

Bæn og fasta

Bæn og fasta

by Sigurður Júlíusson | 5.des 2024

Að þessu sinni í heimahópnum héldum við áfram með efnið sem við vorum byrjuð á varðandi bæn og föstu. Hvernig óvinurinn hefur að því virðist náð að hylja yfir þetta mikla vopn sem, “fasta og bæn” er til að standa gegn djöflinum og fá gegnumbrot inn í líf okkar.

Ef Jesús okkar fullkomna fyrirmynd fastaði og lærisveinarnir þegar þeir voru að starfa í Postulasögunni, þá ætti það að vera augljóst að við þurfum líka að fasta til að lifa í sigri og leiðast af anda Guðs.

Það er hreint út frábær bók sem ég get ekki mælt nógu mikið með sem heitir “The Hidden Power of Prayer and Fasting” eftir Mahesh Chavda sem fer ítarlega í föstu og bæn. Þessi bók er full af kraftaverkum sem Guð gerði í gegnum þjónustu Mahesh Chavda og hvernig Guð notaði líf hans sérstaklega í föstu og bæn til að kenna okkur mikilvægi þessa verkfæris til að sigrast á óvininum.

Hér er linkur á bókina til að panta hana. – The Hidden Power of Prayer and Fasting

Ef þig langar að prufa að koma í heimahópinn okkar þá ertu hjartanlega velkomin. Við hittumst á Borg í Grímsnesi klukkan 19:15 alla fimmtudaga. Hafðu samband til að fá nánari upplýsingar um heimilsfang og mögulegt far með trúsystkinum ef þú ert til dæmis Í Reykjavík eða nágrenni.

Matteusarguðspjall 6:16

Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

Einstakur vitnisburður sem allir ættu að gefa sér tíma til að hlusta á þótt langur sé!

SOTK – Kirkjan, saga hennar, bústaður og uppskera 1.hluti

SOTK – Kirkjan, saga hennar, bústaður og uppskera 1.hluti

Saga kirkjunnar

Okkur er sagt að  muna eftir því sem á undan hefur gerst

Fimmta Mósebók 32:7

Minnstu fyrri tíða, hyggið að árum liðinna alda! Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig, gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá! Guð annast lýð sinn

Sálmarnir 77:11

Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

Sálmarnir 143:5

Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.

Lúkasarguðspjall 17:32

Minnist konu Lots.

„Þegar Jesús talaði til kirkjunnar í Efesus sagði Hann við hana: Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað (Opb 2:5).

Orðið „hrapað“ á grísku merkir „að reika frá“ og gefur í skyn að þeir ættu að líta til baka og skoða hvar kirkjan var stödd 50 árum áður.

Kirkjan – Saga hennar

Vandamálið er: Við viljum kraft frumkirkjunnar án þess að greiða þann kostnað sem hún greiddi.

Ein af forsendunum fyrir gegnumbroti og sigri er að finna í Opinberunarbókinni.

Opinberunarbókin 12:11

Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.

Þetta er spámannlegt um endatímakirkjuna.

Og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði

Frumkirkjan var fædd í dauða og ólst upp við ofsóknir

  • Stefán var grýttur til dauða.
  • Jakobus var hálshöggvinn.
  • Páll var einnig hálshöggvinn.
  • Þúsundir gengu til dauða í hringleikahúsunum.

Andi kristinna manna í frumkirkjunni var sem andi lifandi píslarvotta

Rómverjabréfið 14:8

Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins.

Fyrra Korintubréf 15:31

Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.

Filippíbréfið 1:21

Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.

Þeir voru ekki eigin eign

Líf þeirra var ekki þeirra eigið

Eignir þeirra tilheyrðu ekki þeim sjálfum.

Þeir voru reiðubúnir að gefa allt fyrir Jesú. Þeir lifðu ekki lengur fyrir sjálfa sig.

Jesús sagði við kirkjuna í Smyrnu

“Þér munuð þrenginga hafa í tíu daga.”

Opinberunarbókin 2:10

Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

Rómverski keisarinn Díókletían lýsti yfir stríði gegn kirkjunni á Smyrnu tímabilinu, sem stóð í 10 ár, gríðarlegur fjöldi kristna urðu píslarvættir.

Andi frumkirkjunnar var andi sjálfsafneitunar, andi krossins

Síðara Tímóteusarbréf 2:12

Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss.

Guð er að reisa upp nýja tegund kirkju, kirkju sem mun klæðast þjónustulund og sjálfsafneitun

Hebreabréfið 12:1 & 3-4

-1-Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.

-3- Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast. -4- Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.

Saga kirkjunnar er saga sjálfsafneitunar, fórnar og dauða

Filippíbréfið 2:5-9

Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. -6- Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. -7- Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. -8- Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. -9- Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra,

Við lifum í samfélagi þar sem allir vilja láta þjóna sér. Við eigum réttindi, við skiljum réttindi okkar og stöndum með sjálfum okkur. Heilar nýjar kynslóðir ungs fólks hafa verið aldir upp við húmaníska hugmyndafræði þess að standa með sjálfum sér. Sálfræði hefur komið í stað almennrar skynsemi og Orðs Guðs.

Nú er ólöglegt að aga börn sín með vendinum. Þessir nýaldar “velgjörðarmenn” með gráður í sálfræði, sem hafa smeygt sér inn í stjórnsýsluna, hafa heilaþvegið heila kynslóð. Afleiðingin er lögleysa og óreiða.

Hræðileg skortur á góðri framkomu ungs fólks í dag er einkenni um skort á aga, raunverulegri kennslu og framkvæmd á því hvað sé rétt og rangt.

Rómverjabréfið 15:1-3

Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss. -2- Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar. -3- Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig, heldur eins og ritað er: Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér.

Hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér af hverju Jesús talaði aldrei gegn þrælahaldi á sínum tíma? Páll postuli hvatti þræla til að þjóna húsbændum sínum af trúmennsku.

Jesús boðaði aldrei að ríkisvöldum skyldi steypt með valdi. Hann hvatti okkur einfaldlega til að sýna eiginleika Guðs ríkis í allri auðmýkt, blíðlyndi og kærleika. Hann vissi að aðeins kærleikurinn getur sigrað hið illa.

Rómverjabréfið 12:21

Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.

Rómverjabréfið 13:1-2

Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. -2- Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.

Títusarbréf 2:9

Áminn þræla, að þeir séu undirgefnir húsbændum sínum og í öllu geðþekkir, ekki svörulir,

Skipanir Páls til húsbænda voru:

Kólossubréfið 4:1

Þér sem eigið þræla, veitið þeim það sem rétt er og sanngjarnt og vitið, að einnig þér eigið Drottin á himni.

Það eru hinir hógværu sem að lokum erfa jörðina, og þegar við verðum eins og lömb mun ljónið ganga með lambinu.

Saga frumkirkjunnar er saga þess að leggja líf sitt niður, taka upp krossinn og þjóna öllu mannkyni með kærleika.

Guð blessi þig!

Hversu nálægt viltu komast?

Hversu nálægt viltu komast?

Hversu nálægt viltu komast?

by Sigurður Júlíusson | 21.nóv 2024

Upptaka frá okkar vikulega heimahóp. Að þessu sinni fórum við í Jakobsbréf 4. kafla og fórum það sem Guð krefst af okkur. Við höfum margar frásögur í Biblíunni varðandi það að koma fram fyrir Drottinn með fórn. Fasta er ein tegund fórnar og svo sannarlega öflugt verkfæri til að lægja holdið og nálægja sig Guði.

Á einum stað í kennslunni tók ég dæmi um konuna sem gaf allt sem hún átti, ég sagði tíeyring en það voru þó ekki nema 2 aurar eða tveir smápeningar. Merkilegt má þó nefna að eftir að kennslunni lauk dró einn trúbróðir upp tíeyring eins og ég hafði nefnt í kennslunni, en hann hafði fundið hann stuttu áður og tekið hann upp af jörðinni. Guð staðfestir sitt Orð og því hvet ég þig til að hlusta og leita Guðs með að fasta fyrir þínu gegnumbroti í Jesú nafni.

Ef þig langar að prufa að koma í heimahópinn okkar þá ertu hjartanlega velkomin. Við hittumst á Borg í Grímsnesi klukkan 19:15 alla fimmtudaga. Hafðu samband til að fá nánari upplýsingar um heimilsfang og mögulegt far með trúsystkinum ef þú ert til dæmis Í Reykjavík eða nágrenni.

Jakobsbréfið 4:8-10

Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu. -9- Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð. -10- Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.

Mynd af tíeyringnum tekin þetta kvöld.

SOTK – Vísdómur 8.hluti

SOTK – Vísdómur 8.hluti

Sjöundi stólpi viskunnar “Hræsnislaus”

Jakobsbréf 3:17

En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.

Þetta er sjöundi og síðasti stólpi viskunnar, þessir stólpar eru innri eiginleikar sem gera þig hæfan til að taka við vísdómi Guðs og þær eru grunnurinn sem sannur vísdómur byggir á.

Þeir innri guðlegu eiginleikar sem hafa verið þróaðir innra með þér ákvarða stöðu þína og sæti í ríki Guðs. Guð horfir ekki svo mikið á það sem við gerum, heldur horfir hann á hver við erum.

Síðara Pétursbréf 1:4-8

Með því hefur hann veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur. -5- Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, -6- í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, -7- í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika. -8- Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni (Visku) á Drottni vorum Jesú Kristi.

Ef þessir eiginleikar eru til staðar í þér munt þú raunverulega læra að þekkja Drottinn og þar að auki munt þú verða líkari honum, því þetta eru hans eiginleikar hans eða það sem Guð er.

Gríska orðið fyrir hræsni er *anupokritos* (505), sem þýðir bókstaflega leikari; þykjast; að vera tvöfaldur.

Farísearnir höfðu gert þetta að listformi

Lúkasarguðspjall 12:1

Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir. Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin.

Matteusarguðspjall 23:28

Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

Við lifum í heimi plast eftirlíkinga, plast varð þekkt sem aukaefni, eitthvað sem líkir eftir hinu raunverulega. Í dag er erfitt að greina plast frá málmi, þetta er mynd eða skuggi samfélagsins sem við lifum í. Sjónvarpið mettar okkur með svokölluðum frægum einstaklingum sem eru sýndir sem frábærir menn, en fyrir flesta eru líf þeirra að innan hrörleg blekking, mynd af hræsni, leikur af leiklist.

Þegar við erum að leika berum við grímu

Drottinn opnaði einu sinni augun mín fyrir þessu á mjög myndrænan hátt. Þegar ég var að ganga niður götu í borginni sem ég bý, var allt í einu nær allir sem ég sá með grímu sem gerði þá mjög aðlaðandi. Gríman var haldin upp fyrir andlit þeirra með stiku eins og handfangi á botninum. Stundum slepptu þeir grímunni og mikið aflögð andlit komu í ljós. Ég hugsaði, drottinn, hvað er þetta og þá skyndilega man ég að á 16. til 18. öldinni héldu aðalsmenn veislur og komu með grímu sem var haldin yfir andlitinu með stiku.

Hræsnin er að bera grímu og þykjast vera eitthvað sem við erum ekki. Það sem var ógnvekjandi við þessa upplifun var þegar ég fór næst í kirkju til að predika, þá var næstum allur söfnuðurinn með svipaðar grímur, ekki bókstaflega, heldur í andlega heiminum, en hvað var undir grímunni???

Það sem kristnir menn átta sig ekki á er að þegar þeir eru að þykjast vera eitthvað sem þeir eru ekki, eru þeir að bera grímu sem er raunveruleg í andlega heiminum. Hræsnin er leiklist og þú byrjar í raun að taka upp falskan persónuleika.

Að leika hlutverk er hættulegt

Fyrir nokkrum árum gaf kona líf sitt til Drottins undir þjónustu minni. Þessi kona var í fullu starfi sem leikkona. Þegar hún gaf líf sitt til Drottins hófst barátta, hún byrjaði að skipta á milli mismunandi persónuleika, persónuleika sem hún hafði leikið út í ferli sínu sem leikkona. Þetta var ekki það sem almennt er þekkt sem margþætt persónuleikaröskun. Það sem ég fann var að þessir persónuleikar voru raunverulegar djöflalegar verur. Biblían segir okkur að hræsni sé synd, Lúkas 12:1. Hræsni er nefnd sem súrdeig, sem er synd. Sú synd opnar rás inn í líf manns þar sem djöfulegar verur geta ferðast inn í þann einstakling.

Þessi kona þurfti mikla frelsun áður en hennar raunverulega persóna byrjaði að koma fram. Margir frægir leikarar í dag viðurkenna að þeir viti ekki hverjir þeir eru. Þegar þú setur á þig annan persónuleika eða leikur út eitthvað sem þú ert ekki, opnar sú hræsni þig fyrir andlega heiminum þar sem þú getur orðið undir áhrifum þess sem þú þykist vera.

Matteusarguðspjall 23:28

Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

Okkur er sagt að íklæðast Jesú Kristi

Galatabréfið 3:27

Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.

Kólossubréfið 3:10 & 14

-10- og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.

-14- En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.

Við erum beðin um að klæða okkur í Drottin Jesú, að klæða okkur í dyggðir Hans og karakter, því fræið Hans er innra með okkur, og þegar við beitum eða setjum á okkur þessa guðlegu eiginleika með vali, losum við það fræ sem er innra með okkur og verðum líkir Honum.

Þetta er andleg lögmál sem virkar bæði með ljósi og myrkri

Hvað hefur þetta með visku að gera?

Þegar þú berð grímu, þá virkar gríman sem sía, sem þýðir að allt sem kemur frá Guði til þín fer í gegnum síuna og kemur út á hinum endanum verulega skekkt og mengað út af falskri útgáfu af “þér”. Gríman mun spilla hreinleika þess sem Guð er að miðla. Við verðum að vera laus við hræsni, leiklist og þykjustu. Biblían kallar þennan feril helgun, að skilja okkur frá því sem spillir.

Jóhannesarguðspjall 17:17

Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.

Stundum getur sannleikurinn skorið djúpt í þá vegu sem við lifum, en hlýðni við sannleikann hefur helgandi, hreinsandi áhrif.

Síðara Tímóteusarbréf 2:21

Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.

Því fleiri hyljur eða grímur sem eru fjarlægðar, þeim mun skýrari verður aðgangur okkar að ríki Guðs. Þessar hyljur skyggja og hindra getu okkar til að sjá ríki Guðs.

Matteusarguðspjall 5:8

Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

Síðara Korintubréf 3:18

En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.

Gríska orðið fyrir “óhjúpuðu andliti” í þessu vers eru orðið anakalupto: G343, sem þýðir bókstaflega “andlit án hylju/grímu”.

Því fleiri grímur eða hyljur sem eru fjarlægðir, þeim mun skýrari verður sjón okkar inn í ríki Guðs. Að horfa á andlit Jesú verður æ skýrara, sem aftur gerir okkur kleift að taka við hans áhrifum og breytast í mynd hans, og verða þar með öflugri.

Þá höfum við lokið kennslu okkar á viskunni, ég vona að þær hafi hjálpað þér.

Guð blessi þig!