Til að skilja hversu merkileg þessi fjögur blóðtungl eru, eða (Tetrads) eins og NASA kallar þau, þurfum við að fara vel í gegnum nokkur grundvallaratriði.
Eins og ég hef minnst á áður hafa þessi fjögur blóðtung eða tunglmyrkvar átt sér stað nokkrum sinnum áður. Það eru auðvitað reglulega tunglmyrkvar og sólmyrkvar. Það sem gerir þá atburði merkilega sem ég er að fjalla um núna, er sú staðreynd að þeir eru að lenda á tveimur stærstu hátíðum Drottins, tvö ár í röð, og það fylgja þeim stórviðburðir í sögulegu samhengi.
Hátíðir Drottins fara ekki eftir okkar dagatali, heldur gyðinglega dagatalinu. Við skulum aðeins skoða það til þess að átta okkur á heildarmyndinni.
Árið hefst á mánuðinum Nissan og er hann upphaf vorhátíða Drottins. Gyðinglega nýja árið hefst hinsvegar í mánuðinum Tishri sem er upphaf hausthátíða Drottins. Páskarnir eru aðalhátíð vorsins og Laufskálahátíðin er aðalhátíð haustsins. Þetta eru uppskeruhátíðir og við skulum athuga að þetta eru ekki hátíðir Ísraels, heldur hátíðir Drottins, þrátt fyrir að Ísrael haldi þær enn þann dag í dag.
Skipta þessar hátíðir einhverju máli í dag?
Við sjáum berlega í Orðinu hvernig Jesús uppfyllti hverja vorhátíðina á fætur annarri þegar að Hann kom fyrir 2000 árum og gekk hér um jörðina. Það er gaman að hugsa um hvernig Ísraelsmenn voru búnir að halda páskahátíðina á hverju ári með því að slátra páskalambinu. Hvernig enginn hafði hugmynd um að einmitt árið 33 myndi Guð sjálfur ganga inn í Jerúsalem til þess að uppfylla það sem búið var að æfa svo árum skipti. Hvernig Jesús uppfyllti Hvítasunnuhátíðina þegar Andinn féll á lærisveinana í loftstofunni, en Ísraelsmenn voru einnig búnir að æfa þá hátíð ár eftir ár. Allt voru þetta skuggamyndir af því sem Drottinn ætlaði sjálfur að uppfylla einn daginn.
Það að Guð skyldi koma í holdi og ganga með manninum og að lokum gefa sitt eigið líf fyrir syndir alls heimsins er auðvitað einn stærsti viðburður sem átt hefur sér stað í sögu þessa heims. Við vitum að Guð setti tákn á himininn þegar að Jesús fæddist. Vitringarnir þrír sáu þau og komu og færðu nýfæddum frelsara heimsins gjafir. Það vita kannski ekki allir að Guð setti líka tákn á himininn þegar að Jesús var krossfestur. Það voru tveir tunglmyrkvar árið 32 á Páskum og Laufskálahátíðinni, sólmyrkvi þegar Jesús var krossfestur og aftur tveir tunglmyrkvar að hluta árið eftir á Páskum og Laufskálahátíðinni. Ég vil taka fram að það er hægt að reikna bæði aftur og fram í tímann nákvæmlega hvenær tunglmyrkvar og sólmyrkvar áttu og eiga sér stað.
Þetta er hægt að skoða á vef NASA hér:
1 Mós 1:14
Guð sagði: Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir (hátíðir), daga og ár.
Orðið tíðir hér að ofan er þýtt seasons í mörgum enskum þýðingum. Ég hafði alltaf hugsað þetta sem sumar, vetur, vor og haust. Í þriðju Mósebók er þetta sama orð Moed eins og það er á Hebresku, þýtt sem hátíðir í íslensku Biblíunni.
Moed þýðir samkvæmt Strongs: Divine appointment, appointed feast, appointed festival, appointed time, appointed meeting place. (Íslensk þýðing: Guðlegt hátíðarstefnumót).
Guð hefur sett tákn á himininn til þess að benda okkur á tímasetningar þar sem að hann ætlar að hitta okkur. Það var svo sannarlega raunin við krossfestingu Jesú Krists sem átti sér stað á einni helstu hátíð Drottins. Þá ákvað Guð að koma og dvelja á meðal mannanna. Hann átti stefnumót við mannfólkið.
Hafa slík tákn átt sér stað eftir þetta?
Átta sinnum frá tímum Jesú á jörðinni hefur það gerst að tveir tunglmyrkvar hafa hitt beint á Páska og Laufskálahátíðina, tvö ár í röð, eða fjögur blóðtungl samanlagt. Sagan getur því miður ekki sagt okkur nákvæmlega hvað átti sér stað í öll þau skipti sem þessir atburðir höfðu bein áhrif á Ísrael, þótt sumir hafi hent fram ýmsum möguleikum. Við getum þó skoðað síðustu þrjú skipti og séð hversu gríðarleg áhrif þau höfðu á Ísraelsmenn.
Byrjum á því að skoða árið 1493 og 1494. Þá átti svona atburður sér stað en árið á undan höfðu tugþúsundir Gyðingar verið reknir frá Spáni vegna tilkomu Spænska rannsóknarréttarins. Á sama tíma er Kristófer Kólumbus sem af mörgum er talinn hafa verið leynilegur Gyðingur að finna Ameríku sem varð griðarstaður fyrir marga af þessum Gyðingum.
Þessi fjögur blóðtungl létu ekki sjá sig aftur fyrr en 456 árum síðar eða árið 1949, árið eftir að Ísrael fær aftur heimaland sitt eftir tæp 2000 ár. Ég vil meina að þessir tilteknu tunglmyrkvar hafi ákvarðast við Jerúsalem, en það var einmitt í Janúar 1949 að Ísrael endurheimtir hluta Jerúsalem. Við getum öll verið sammála um að á þessum tíma er mjög stór sögulegur viðburður að eiga sér stað í heiminum og það eru tákn á himni. Nánar tiltekið atburður sem snertir Ísraelsmenn beint.
Það er merkilegt að skoða í sögulegu samhengi hluti sem eru að eiga sér stað í kirkjunni á sama tíma. Árið 1948 hefst nefnilega lækningavakningin mikla í Bandaríkjunum sem varir til 1956.
Það líða ekki nema 19 ár þar til að samskonar atburður gerist aftur. Við erum enn að tala um fjögur blóðtungl sem lenda beint á tveimur stærstu hátíðum Drottins, tvö ár í röð. Þetta er árið 1967 og 1968, þegar að Ísrael endurheimtir alla Jerúsalem eftir sex daga stríðið. Á þessum sama tíma er náðargjafavakningin að hefjast í kirkjunni og hippatímabilið í heiminum.
Fyrir mitt leyti er það farið að verða frekar ljóst að hér er ekki um tilviljanir að ræða. Það leiðir mig að næstu spurningu.
Hvenær gerist þetta næst?
Þetta er að gerast í þessum töluðu orðum. Það voru tveir tunglmyrkvar árið 2014, síðast 8. október á Laufskálahátíðinni og það verða tveir árið 2015. Það verður einnig sólmyrkvi þann 20.mars 2015, sem vill svo til að er einmitt síðasti dagurinn í gyðinglega dagatalinu eða dagurinn fyrir 1. Nissan sem kallast “Nýtt ár Konunga”.
Af öllum þeim átta skiptum sem að þessi blóðtungl hafa hitt á stórhátíðir Drottins hefur aldrei verið sólmyrkvi á meðal þeirra, nema árið 33, þegar Jesús var krossfestur en þá voru síðari tveir ekki fullir tunglmyrkvar. Árið 2015 verða tveir sólmyrkvar og hittir hinn síðari á 13. september sem einmitt vill svo til að er Lúðrahátíðin eða Feast of trumpets.
Einu sinni á ári á sér stað fyrirbæri sem heitir Perigee. Perigee er orð yfir eitthvað sem kallast ofurtungl en það er þegar að tunglið er næst jörðu og virðist vera 14% stærra en venjulega. Hverjar ætli líkurnar séu á því að einmitt þegar að síðasta blóðtunglið af fjórum á sér stað þann 28. september 2015, á Lauskálahátíðinni að það hitti einmitt á þennan eina dag sem að ofurtungl á sér stað? Ætli þær séu ekki stjarnfræðilega litlar. Þetta er nú samt raunin og þetta ofur blóðtungl mun vera beint yfir Jerúsalem á Laufskálahátíðinni á næsta ári.
Ég fjallaði um hvernig að Drottinn uppfyllti vorhátíðirnar með fyrri komu sinni. Hausthátíðirnar eru enn óuppfylltar og eru tengdar seinni komu Krists. Það er of langt mál að ætla að útskýra í þessari grein þá spámannlegu uppfyllingu Lúðrahátíðarinnar og Laufskálahátíðarinnar sem mun eiga sér stað við seinni komu Drottins. Ég get líka sagt að það er líklega enginn sem veit nákvæmlega hvernig síðari koman mun nákvæmlega eiga sér stað og hvað mun fylgja henni.
Það eru fleiri atburðir tengdir Biblíunni eins og fagnaðarár sem samkvæmt útreikningum fróðra manna mun einnig hitta beint á hausthátíðirnar á næsta ári. Ef að við skoðum síðustu ár þá virðist einnig vera samhengi á milli sjöunda (í árum talið). 11.september árið 2001 voru árásirnar á tvíburaturnana í Bandaríkjunum. Nákvæmlega sjö árum síðar í september varð efnahagshrunið. Í september á næsta ári eru aftur liðin sjö ár og í þetta skipti er líklegt að það verði fagnaðarár sem er fimmtugasta árið.
Lesum aðeins hér fyrir neðan til að skilja betur hvernig Biblían notast við sjöundir og hvað fylgdi fagnaðarári.
3. Mós 25:1-13
Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði: -2- Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, þá skal landið halda Drottni hvíld. -3- Sex ár skalt þú sá akur þinn og sex ár skalt nú sniðla víngarð þinn og safna gróðrinum. -4- En sjöunda árið skal vera helgihvíld fyrir landið, hvíldartími Drottni til handa. Akur þinn skalt þú ekki sá og víngarð þinn skalt þú ekki sniðla. -5- Korn það, er vex sjálfsáið eftir uppskeru þína, skalt þú eigi skera, og vínber óskorins vínviðar þíns skalt þú eigi lesa. Það skal vera hvíldarár fyrir landið. -6- Gróður landsins um hvíldartímann skal vera yður til fæðu, þér, þræli þínum og ambátt, kaupamanni þínum og útlendum búanda, er hjá þér dvelja. -7- Og fénaði þínum og villidýrunum, sem í landi þínu eru, skal allur gróður þess vera til fæðu. -8- Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. -9- Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar, -10- og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar. -11- Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum. -12- Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt. Skuluð þér eta af jörðinni það er á henni sprettur. -13- Á þessu fagnaðarári skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns.
Árið 1994 gerðist einstakur hlutur sem ekki hafði gerst áður svo menn viti en það var einmitt sjö árum fyrir fall tvíburaturnanna. Reikistjarna sem hét Shoemaker Levy rakst á Júpíter og varð fyrsti geimárekstur í sólkerfinu okkar sem menn hafa orðið vitni af. Þetta var engin smá viðburður og var mikið fjallað um þetta í heimspressunni. Shoemaker Levi brotnaði í marga hluta og voru skráðir 21 mismundandi árekstrar við Júpíter. Stærsti áreksturinn jafngildi að krafti 600 sinnum öllu kjarnorkuvopnabúri jarðarinnar lagt til samans. Fyrsti áreskturinn átti sér stað klukkan 20:13, 16. júlí 1994 sem var 9. Av á gyðinglega dagatalinu.
Maður veltir fyrir sér hvort að þarna hafi Guð verið með tákn á himni. Hvort þessi 21 árekstur hafi táknað 21 ár en það er enmitt 21 ár liðið á næsta ári eða árið 2015. Það eru mörg tákn sem benda á árið 2015, á því leikur engin vafi.
Ég veit að ég er aðeins komin út fyrir efnið en það er svo auðvelt að fara dýpra þegar að maður er að skoða þessa hluti. 9. Av er engin venjulegur dagur á gyðinglega dagatalinu sjáið þið til. Bæði musteri Ísraelsmanna voru eyðilögð á 9. Av upp á dag.
Eru þetta allt tilviljanir?
Er Jesús að koma aftur?
Jóel 2:31-32
Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. -32- Og hver sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast. Því að á Síonfjalli og í Jerúsalem mun frelsun verða, eins og Drottinn hefir sagt, meðal flóttamannanna, sem Drottinn kallar.
Opinberunarbókin 6:12
Og ég sá, er lambið lauk upp sjötta innsiglinu. Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð.
Ég trúi því að eitthvað stórt sé í uppsiglingu sem muni hafa mikil áhrif á framtíð okkar. Mínar hugleiðingar eru á þá leið að líkur séu á stærra stríði í Ísrael en við höfum séð undanfarin ár. Það kæmi mér heldur ekki á óvart ef að annað og stærra efnahagshrun ætti sér stað. Ég vona þó svo sannarlega að það verði mikil vakning eins og var árið 1948 og 1967, jafnvel lokavakning áður en Jesús kemur aftur.
Allir ættu að hafa góðar gætur á samfélagi sínu við Drottinn á þessum dögum og vera viss í sínu hjarta að það sé raunverulegt persónulegt samband í gangi. Allt getur gerst, sérstaklega miðað við það sem sagan sýnir okkur í tengslum við þessi fjögur blóðtungl á stórhátíðum Drottins og svo hvernig öll táknin benda til þess að árið 2015 sé alveg í sérstakt í þeim samanburði.
Þessi Grein er frá árinu 2014 en það er áhugavert að sjá þær gífurlegu breytingar sem eru búnar að eiga sér stað í heiminum á þessum tæpu 10 árum frá því að þessi blóðtung komu fram árið 2015.