Mikilvægur lykill til að skilja spádómana um Ísrael, er sú staðreynd að eftir tíma Salómons konungs, þá skiptist þjóðin í tvö konungsríki. Norðurríkið sem í Ritningunni er kallað Hús Ísraels (innihélt tíu ættkvíslir plús hluta af Levítunum) og Suðurríkið eða Hús Júda (innihélt ættkvíslirnar Júda og Benjamín plús meirihlutann af Levítunum). Frá þessu er sagt í Fyrri Konungabók 12. kafla.
Þessi skipting hélt áfram og í Jeremía 33:24 (King James þýðingin) er talað um tvær fjölskyldur (í ísl. þýðingunni frá 1981 er talað um tvær ættkvíslir sem er alveg út í hött, en í nýju ísl. þýðingunni er talað um tvo ættbálka, sem er skárra þó það sé alls ekki rétt).
Jer 33:24 Hefir þú ekki tekið eftir, hvað þessi lýður talar, er hann segir: “Báðum ættkvíslunum, sem Drottinn útvaldi, hefir hann hafnað!” og að þeir segja fyrirlitlega um lýð minn, að hann sé ekki þjóð framar í þeirra augum?
Þessum tveim fjölskyldum er líkt við “tvær ótrúar eiginkonur” í Jeremía 3:6-9:
Jer 3:6 Drottinn sagði við mig á dögum Jósía konungs: Hefir þú séð, hvað hin fráhverfa Ísrael hefir aðhafst? Hún fór upp á hverja háa hæð og inn undir hvert grænt tré og hóraðist þar. Ég hugsaði raunar: Eftir að hún hefir aðhafst allt þetta, mun hún snúa aftur til mín. En hún sneri ekki aftur. Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda, og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór, og með hinu léttúðarfulla lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með steini og trédrumbi.
Einnig er þeim líkt við tvær systur í Esekíel 23. kafla og tvær þjóðir í Esekíel 37:22 Og ég vil gjöra þá að einni þjóð í landinu, á Ísraels fjöllum, og einn konungur skal vera konungur yfir þeim öllum, og þeir skulu eigi framar vera tvær þjóðir og eigi framar vera skiptir í tvö konungsríki.
Þær voru synirnir tveir í dæmisögum Jesú, sem gaf til kynna að ættkvíslirnar voru enn aðskildar á hans dögum (Matteus 21:28-32, Lúkas 15:11-32).
Hús Ísraels, eða Norðurríkið sem oft er kallað “Efraím” eftir leiðandi ættkvíslinni fór út í skurðgoðadýrkun og var sigrað af Assýríumönnum á 8. öld f. Kr. (722) og dreift austur fyrir fljótið Efrat. Við getum lesið um það í 2. Konungabók 17:3 og 17:5-6
2Ki 17:3 Salmaneser Assýríukonungur fór herför í móti honum, og varð Hósea lýðskyldur honum og galt honum skatt.
2Ki 17:5 Og Assýríukonungur herjaði landið allt og fór til Samaríu og sat um hana í þrjú ár. 6 En á níunda ríkisári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu og herleiddi Ísrael til Assýríu. Fékk hann þeim bústað í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda.
Hús Júda, eða Suðurríkið hélt meira en hundrað og þrjátíu árum lengur út og þeir voru að lokum sigraðir af öðru heimsveldi, heimsveldi Babýloníumanna. Nebúkadnesar Babýloníukonungur herleiðir Gyðinga til Babýlon árið 586. Gyðingar eru í útlegð í Babýlon í 70 ár, allt þar til Persar hertaka Babýlon og Kýrus mikli persakonungur veitir Gyðingum heimfaraleyfi árið 538 f. Kr. Talið er að um 40.000 manns hafi flust frá Babýlon aftur til Jerúsalem og Júdeu og frá því er sagt í Ezra og Nehemía.
En áætlun Guðs snýst um það að sameina aftur allan ísraelslýð. Við sjáum til dæmis í Ezekíel 37:15-28:
Eze 37:15 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: “Þú mannsson, tak þér staf og rita á hann:
Eze 37:16 ,Júda og Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.’ Tak því næst annan staf og rita á hann: ,Jósef, stafur Efraíms, og allir Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.’
Eze 37:17 Teng þá síðan hvorn við annan í einn staf, svo að þeir verði að einum í hendi þinni.
Eze 37:18 Og er samlandar þínir tala til þín og segja: ,Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða?’
Eze 37:19 þá seg þeim: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég tek staf Jósefs, sem er í hendi Efraíms og þeirra ættkvísla Ísraels, sem eru í bandalagi við hann, og gjöri þá að staf Júda, svo að þeir verði einn stafur í hendi Júda.
Eze 37:20 Og stafirnir, sem þú skrifar á, skulu vera í hendi þinni fyrir augum þeirra.
Eze 37:21 Og mæl til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna, þangað sem þeir fóru, og saman safna þeim úr öllum áttum og leiði þá aftur inn í land þeirra.
Eze 37:22 Og ég vil gjöra þá að einni þjóð í landinu, á Ísraels fjöllum, og einn konungur skal vera konungur yfir þeim öllum, og þeir skulu eigi framar vera tvær þjóðir og eigi framar vera skiptir í tvö konungsríki.
Drottinn segir líka í Jesaja 11:12: Og hann mun reisa merki fyrir þjóðirnar, heimta saman hina brottreknu menn úr Ísrael og safna saman hinum tvístruðu konum úr Júda frá fjórum höfuðáttum heimsins.
Ritningin segir að þeir muni verða sameinaðir þegar þeir hafa einn hirði sem er sonur Davíðs, Messías (Esekíel 37:24) eins og æðsti presturinn spáði um í Jóhannes 11:51-52: “En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: “Þér vitið ekkert 50og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist.” 51Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina, 52og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs.”
En það bíður eftir því að bæði Ísrael og Júda, snúi sér til Drottins Jesú Krists.
Við sjáum að Ritningin greinir víða frá því að Ísrael og Júda eru aðskildar þjóðir á dögum Jesú og Postulanna, en þar er á nokkrum stöðum talað um:“týnda sauði af Ísraelsætt.” (Matt. 10:6, 15:24).
Í ritum Gyðinga eru frásagnir af því hvernig Hús Ísraels var sigrað af Assýríu og dreift inn í óbyggt land (2. bók Esra 13:40-48). Jesaja 62:2 segir frá því að þeir fái nýtt nafn og að þeir muni fara með fagnaðarerindið til endimarka jarðarinnar: (Jesaja 49:5-6) “5 En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, – og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur – 6nú segir hann:
“Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveist hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar.”
Esekíel segir frá því að dreifingin á Húsi Ísraels meðal þjóðanna var aðferð Guðs til að hreinsa sitt fólk. “15Og ég mun tvístra þér meðal þjóðanna og dreifa þér út um löndin og gjörsamlega uppræta óhreinleik þinn úr þér, 16og þú skalt vanhelguð verða í augsýn heiðingjanna, og þá skalt þú viðurkenna, að ég er Drottinn.” (Esekíel 22:15)
Þeir mundu fá nýtt hjarta og nýjan anda sbr. Esekíel 36:26-27 og nýjan sáttmála (Jeremía 31:31). Útkoman verður sú að Guð notar þá að lokum til að koma á réttlæti á jörðinni (Jesaja 42:3-7).
Í 5. Mósebók, 32:8-9 segir:
“Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna,
þá er hann greindi í sundur mannanna börn,
þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna
eftir tölu Ísraels sona.
9Því að hlutskipti Drottins er lýður hans,
Jakob úthlutuð arfleifð hans. “
Hér segir að í upphafi þá staðsetti Guð þjóðirnar með tilliti til þess að börnum ísraels yrði dreift á meðal þeirra síðar, en Jakob er sonurinn sem heldur í arfleifðina.
Í 1. Mósebók 35:10-11, segir Guð eftirfarandi við ættfaðirinn Jakob:
“Og Guð sagði við hann:
“Nafn þitt er Jakob. Eigi skalt þú héðan af Jakob heita, heldur skal nafn þitt vera Ísrael.”
Og hann nefndi hann Ísrael. 11Og Guð sagði við hann:
“Ég er Almáttugur Guð. Ver þú frjósamur og auk kyn þitt. Þjóð, já fjöldi þjóða skal frá þér koma, og konungar skulu út ganga af lendum þínum. 12Og landið, sem ég gaf Abraham og Ísak, mun ég gefa þér, og niðjum þínum eftir þig mun ég gefa landið.”
Hér er spádómur um Jakob, að frá honum muni annars vegar koma þjóð (Júda) og hins vegar fjöldi þjóða (Ísrael).
Meira en sex öldum eftir að ættkvíslirnar dreifðust meðal þjóðanna á árunum 93-94 e.Kr, skrifar sagnaritarinn Jósefus: “Ættkvíslirnar tíu, snéru ekki aftur til Palestínu…. Það eru aðeins tvær ættkvíslir í Asíu og Evrópu sem lúta Rómverjum, en ættkvíslirnar tíu eru handan við Efrat allt til þessa dags og eru þær feiknarlegur mannfjöldi. (Saga Gyðinga, bók 11, kafli 5.2).
Þarna sjáum við að ættkvíslirnar 10 eru ekki lengur í Ísrael, og meirihlutinn býr utan yfirráðasvæðis Rómverja. Þótt meirihluti Húss Ísraels hafi verið utan heimalandsins í sex aldir, þegar Jósefus ritar bók sína, þá virðist hann vita hvar þeir búa og þeir séu orðinn gríðarlegur mannfjöldi. Ef ættkvíslirnar 10 voru orðinn gríðarlegur mannfjöldi árið 94 e.Kr., þá getum við með framreikningi gert ráð fyrir að þeir séu hundruð milljóna í dag og dreifðir um allan heiminn.
Í Jóhannesarguðspjalli 7:35, eru Gyðingar að velta því fyrir sér hvert Jesús ætli að fara:
“35Þá sögðu Gyðingar sín á milli: “Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum?”
Þarna eru Gyðingar að velta því fyrir sér, hvort Jesús ætli að fara að kenna Gyðingum (hér á að standa – þeim sem dreifðir eru meðal Grikkja) í dreifingunni, eða kenna Grikkjum.
Pétur postuli segir í 1. Pétursbréfi 1:1-2:
Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu, 2en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans.
Pétur stílar bréf sitt ekki til heiðingjanna, hann stílar það greinilega til þeirra hebrea sem eru í dreifingunni (diaspora) sem á þessum dögum kölluðust Hellenistar, því þeir töluðu grísku.
Í Matteusarguðspjalli 10:5-6, er Jesús að segja postulunum hvert þeir eigi að fara með fagnaðarerindið:
5Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: “Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg. 6Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt (á að vera: húsi Ísraels).
Jesús endurtekur þetta aftur í Matteusarguðspjalli kafla 15:21-28, þegar hann er að ræða við kanversku konuna í Fönikíu:
Kanversk kona
21Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. 22Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: “Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.”
23En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: “Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum.”
24Hann mælti: “Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.”
25Konan kom, laut honum og sagði: “Herra, hjálpa þú mér!”
26Hann svaraði: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.”
27Hún sagði: “Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.” 28Þá mælti Jesús við hana: “Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.” Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
Hvert fóru svo postularnir til að predika fagnaðarerindið?
Þótt arfsagnir rómversku kirkjunnar frá postulatímanum, séu ef til vill ekki mjög áreiðanlegar, þá er það engu að síður athyglisvert að skoða hvert postularnir eru sagðir hafa farið.
Arfsagnir kirkjunnar segja frá því að Pétur hafi aðallega predikað í Litlu-Asíu og Róm. Andrés sé grafinn í Úkraínu. Tómas hafi farið til Assýríu og frá Assýríu til Indlands og dáið þar. Jóhannes hafi aðallega starfað í Galatíu. Símon vandlætari hafi farið til Norður-Afríku. Jakob bróðir Jóhannesar hafi farið til Spánar.
Þetta gefur okkur dálitla hugmynd um það hvar postularnir voru að predika. Postularnir fóru og predikuðu fagnaðarerindið fyrir Hellenistunum, eins og Jesús hafði sagt þeim að gera.
Sál, sem síðar varð postulinn Páll, kom aðeins síðar til sögunnar en hinir postularnir, en hvað segir Ananías um köllun Páls í Postulasögunni 9:15?
15Drottinn sagði við hann: “Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels, 16og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns.”
Hér segir Drottinn við Ananías, að Páll verði sendur til þjóðanna (ethnos), en einnig til afkomenda Jakobs (synir Ísraels).
Í Jeremía 23:7-8, segir frá því að fyrsta boðorðið verði uppfært.
7Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma – segir Drottinn – að menn munu eigi framar segja: “Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi!” 8heldur: “Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi og flutti heim niðja Ísraels húss úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hafði rekið þá, svo að þeir mættu búa í landi sínu!”
Í Jeremía 31:1-11 segir:
1Á þeim tíma mun ég – segir Drottinn – vera Guð fyrir allar ættkvíslir Ísraels, og þeir munu vera mín þjóð.
2Svo segir Drottinn: Sá lýður, er undan sverðinu komst, fann náð í óbyggðum, er Ísrael leitaði hvíldar.
3Úr fjarlægð birtist Drottinn mér: “Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig.”
4Enn vil ég endurreisa þig, svo að þú verðir endurreist, mærin Ísrael. Enn munt þú skreyta þig með bjöllum og ganga út í dansi fagnandi manna.
5Þú munt enn planta víngarða á Samaríufjöllum. Þeir, sem hafa gróðursett þá, munu og hafa nytjar þeirra.
6Já, sá dagur mun koma, að varðmennirnir kalla á Efraím-fjöllum: Standið upp, förum upp til Síon, til Drottins, Guðs vors!
Aftur til fyrirheitna landsins
7Svo segir Drottinn:
Fagnið yfir Jakob með gleði og kætist yfir öndvegisþjóð þjóðanna. Kunngjörið, vegsamið og segið: Frelsa, Drottinn, þjóð þína, leifarnar af Ísrael!
8Sjá, ég flyt þá úr landinu norður frá og safna þeim saman frá útkjálkum jarðar, á meðal þeirra eru bæði blindir og lamir, bæði þungaðar og jóðsjúkar konur, í stórum hóp hverfa þeir hingað aftur.
9Þeir munu koma grátandi, og ég mun fylgja þeim huggandi, leiða þá að vatnslækjum, um sléttan veg, þar sem þeir geta eigi hrasað, því að ég er orðinn Ísrael faðir, og Efraím er frumgetinn sonur minn.
Þetta er skírt fyrirheit um að Drottinn mun flytja ættkvíslirnar aftur til Ísraels. Í 1. Mósebók þá gaf Guð Abraham allt landið frá ánni Níl að Efrat fljóti.
Í 10. kafla Sakaría segir svo:
6Ég gjöri Júda hús sterkt, og Jósefs húsi veiti ég hjálp. Ég leiði þá aftur heim, því að ég aumkast yfir þá, og þeir skulu vera eins og ég hefði aldrei útskúfað þeim. Því að ég er Drottinn, Guð þeirra, og ég vil bænheyra þá.
7Þá munu Efraímsmenn verða eins og hetjur og hjarta þeirra gleðjast eins og af víni. Börn þeirra munu sjá það og gleðjast, hjarta þeirra skal fagna yfir Drottni.
8Ég vil blístra á þá og safna þeim saman, því að ég hefi leyst þá, og þeir skulu verða eins fjölmennir og þeir forðum voru. 9Ég sáði þeim út meðal þjóðanna, en í fjarlægum löndum munu þeir minnast mín og uppala þar börn sín og snúa síðan heim. 10Ég mun leiða þá heim aftur frá Egyptalandi og safna þeim saman frá Assýríu. Ég leiði þá inn í Gíleaðland og inn á Líbanon, og skorta mun landrými fyrir þá.
Við sjáum hér, að ættkvíslirnar tíu eru svo fjölmennar að þegar þær snúa heim aftur, þá skortir landrými handa þeim, þannig að þeir setjast einnig að í Gíleaðlandi (fjallendið austan árinnar Jórdan, sem nú er í Jórdaníu) og Líbanon.
Þegar Jesús fer að tala um endi aldanna, eða þúsundáraríkið talar hann um 12 ættkvíslir Ísraels, eins og allar ættkvíslirnar séu fundnar:
Matteus 19:28: “28Jesús sagði við þá: “Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.”
Í Opinberunarbókinni kafla 7:4-8 er gerð grein fyrir öllum ættkvíslum Ísraels nema Dan, þegar þjónar Guðs eru merktir innsigli.
Ef Jesús er sérstaklega að leita að hinu týndu sauðum af Húsi Ísraels, þá er líklegt að meirihluti brúðarinnar komi frá þeim ættkvíslum. Sumir ganga jafnvel svo langt að fullyrða að brúður Jesú Krists komi aðeins frá hinum 12 ættkvíslum Ísraels.
Þetta er stórkostlegasta ástarsaga sem nokkru sinni hefur verið sögð, jafnvel þótt hjónabandið hafi verið stormasamt í meira lagi og endað með hjónaskilnaði.
Í Jeremía 3:8, segist Guð hafa skilið við Hús Ísraels.
Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda, 8og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór,
En það segir svo í Rómverjabréfinu 7:2-3.
“Gift kona er að lögum bundin manni sínum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmálinu, sem bindur hana við manninn. 3Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns.”
Jesús var eiginmaðurinn sem dó og greiddi fullt verð fyrir endurlausn tilvonandi konu sinnar. Öll áætlun Guðs síðustu 2000 árin snýst um það eitt að leysa út þessa eiginkonu fyrir Soninn.
Hósea 1:10-11 segir svo:
10Tala Ísraelsmanna skal verða sem sandur á sjávarströnd, sem ekki verður mældur og ekki talinn. Og í stað þess, að sagt var við þá: “Þér eruð ekki minn lýður!” skal við þá sagt verða: “Synir hins lifanda Guðs!”
11Júdamenn og Ísraelsmenn skulu safnast saman og velja sér einn yfirmann og hefja ferð sína heim úr landinu, því að mikill mun Jesreeldagur verða.
Jesreeldalur er frjósamasti hluti Ísrael og Megiddo eða Har Megiddo (Harmagedón á grísku) er í miðjum dalnum.
Jesús hefur gert allt sem þarf til að endurleysa tilvonandi eiginkonu sína, og fljótlega mun lokauppskeran hefjast, þegar leifarnar koma inn í guðsríkið.
Opinberunarbókin 21:12
12Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf.
Við vitum að í eilífðinni býr eiginkonan í borginni helgu, Nýju Jerúsalem með eiginmanninum. Það er því líklegt að hinni Nýju Jerúsalem sé skipt niður í 12 svæði, eitt fyrir hverja ættkvísl og hvert svæði hefur sitt hlið með nafni ættkvíslarinnar.
Náð Guðs veri með þér.