Ljós í myrkri
Velkomin á síðuna. Hér er stutt kynningarmyndband fyrir þig sem mun aðeins birtast við fyrstu heimsókn.
Guð blessi þig!
John Graham Lake var kandískur-bandarískur leiðtogi í hvítasunnuhreyfingunni sem hófst snemma á 20. öld og er þekktur sem lækningarpredikari, trúboði og ásamt Thomas Hezmalhalch, meðstofnandi postullega trúarboðsins í Suður-Afríku. John fæddist þann 8.mars árið 1870 og var 65 ára gamall þegar hann lést 16.september árið 1935.
Líf hans og þjónusta hafði mjög mikil áhrif á líf fólks og er hann einn af þekktari Guðs mönnum sem farið hafa á undan okkur.
John ólst upp ásamt 16 systkinum við mikil veikindi innan fjöldskyldunnar. Veikindin tóku sinn toll og varð meltingarsjúkdómur honum næstum því að bana. Þrátt fyrir að hann hafi lifað, dóu átta af systkinum hans. John ólst því upp við mikla sorg, jarðarfarir og grát foreldra sinna og komst fljótt af því að veikindi og sjúkdómar voru ekki af hinu góða.
John tók á móti Jesú eftir að hafa flutt til Michigan, þar fór hann á samkomu hjá hjálpræðishernum og frelsaðist. Þegar þarna er komið að sögu er hann orðinn 16 ára og neitar að sætta sig við að vera sjúkur lengur, hann hafði talað við fólk innan kirkjunnar en fékk alltaf sömu svörin að þetta væri bara Guðs vilji fyrir hann að vera svona sjúkur. En hann gat ekki séð að sjúkdómar gætu verið Guðs vilji miðað við þær hörmungar sem hann hafði séð í lífi sínu og fjölskyldu. Hann leit til Guðs eftir kraftaverki og Guð læknaði hann.
Stuttu eftir lækninguna þá kom upp að annar fóturinn á honum byrjaði að vaxa óeðlilega og varð mjög stór og bólginn. Hann fékk sömu svörin í frá kirkjunni að þetta væri Guði til dýrðar, en þá talaði Guð til hans að það væri djöfullinn sem kæmi með sjúkdóma.
Þá fór John til Chicago þar sem Alexander Dowie var með miðstöð fyrir lækningar, John hafði heyrt að þar fengi fólk lækningu og það var þar sem Guð læknaði hann aftur.
Við 21 árs aldurinn giftist hann Jennie Stevens og eignuðust þau 7 börn, síðar er hún greind með líshættulegan sjúkdóm og bíður dauðans ásamt 3 af systkinum John´s. Það virðist oft með líf þeirra sem Guð notaði á kraftmikinn hátt að hörmungar og erfiðleikar fylgja, sem verður til þess að þau finna þann stað í Guði sem verður til þessa að vakningar, lækningar og kraftaverk gerast í gegnum líf þeirra. Þetta var ekkert frábrugðið með John, eftir að hafa sjálfur fengið lækningu frá Guði í gegnum þjónustu Alexander Dowie ákvað hann að fara með systkini sín eitt af öðru og öll fengu þau lækningu af ólæknandi sjúkdómum. Þegar kom að konu hans, þá var hann sjálfur kominn með svo mikla trú að hann sagði að hann myndi sjálfur leggja hendur yfir hana og kl. 9:30 þann 28 apríl árið 1898 gerði hann það og Guð læknaði hana.
Það spurðist um allt að hún Jennie hefði fengið lækningu og í kjölfarið fór fólk að þyrpast að til að fá einnig lækningu og þar byrjaði ein af merkilegustu þjónustum síðari tíma.
Á sama tíma og þetta var að eiga sér stað var John einnig að byggja sér upp starfsframa og gekk vel, hann varð auðugur maður og stofnaði tvö fréttablöð. Hann fór út á fasteignamarkaðinn þar sem hann græddi 250.000$ innan tveggja ára, sem væru milljónir dollara í dag.
Þrátt fyrir allar lækningarnar, velgengni og göngu hans með Guði var hann hungraðari en nokkru sinni fyrr eftir meira af Guði. Vinir hans höfðu alltaf sagt að hann hefði skýrn Heilags Anda, en hann var viss um að eitthvað vantaði. Hann fór að leita Guðs af öllu hjarta og í 9 mánuði þá fastaði hann reglulega, bað og hrópaði á Drottinn eftir skýrn Heilags Anda.
Maður spyr sig ef að hann var ekki komin með skýrn heilags anda þrátt fyrir öll kraftaverkin og trúna, getur verið að skýrn í Heilögum Anda sé eitthvað meira en við höfum áður haldið. Því um leið og Guð skýrði hann í Heilögum Anda þá gaf hann eftir allar eigur sínar, hætti í öllum viðskiptum við heiminn og Guð sendi hann til Afríku ásamt fjöldskyldu sinni með ekkert nema traust á að Hann myndi sjá fyrir þörfum þeirra. Þar braust síðan út vakning með komu hans og hundruð þúsunda frelsuðust og læknuðust.
Guð sá fyrir öllum hans þörfum þótt oft hafi verið mjög erfitt. Við komu hans til Afríku þar sem þau höfðu ekki einu sinni hús, þá hafði Guð talað til einnar manneskju í draumi að hún ætti að gefa honum og fjölskyldu hans hús sem þau fengu svo um leið og þau komu.
Eftir að hafa verið í Afríku þar sem hundruðir af kirkjum höfðu sprottið upp í gegnum líf hans, óteljandi lækningar, lausnir og vakning hafist sem breytti Afríku. Þá fór hann heim til Ameríku þar sem hann stofnaði lækningarstaði sem síðar voru kölluð lækningaherbergin. Þar kenndi hann fólki sem starfaði með honum að öðlast trú til að láta Guð nota þau til lækninga og upp spratt um öll Bandaríkin þessi lækningaherbergi.
Það er áætlað að hann hafi leitt að minnsta kosti eina milljón manns til Krists.
Líf John´s hefur skilið eftir sig arfleifð um allan heim sem hefur orðið þúsundum til trúarstyrkingar, þar með talið sjálfum mér. Það eru til margar bækur um líf hans sem er stórkostleg lesning um kraft Guðs og hvað við getum gert í dag ef við bara trúum.
John ásamt svo mörgum af þessum hetjum fengu að sjá að sá dagur myndi koma þegar vakning myndi koma yfir þennan heim sem aldrei hefur áður sést og mun hún koma á síðustu tímum og safna saman síðustu uppskerunni sem ég trúi að verði sú stæðsta og mesta sem þessi heimur hefur séð frá upphafi.
“Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” Heb 13:7-8
Kathryn Kuhlman var lækninga- og sjónvarpspredikari sem stýrði um árabil þáttum sem hétu ,,Do you believe in miracles’’ eða Trúir þú á kraftaverk. Hún fæddist þann 9.maí árið 1907 og þjónaði Guði þar til hún lést þann 20.febrúar 1976, 68 ára gömul.
Það er merkilegt hvernig Guð valdi stundum fólk sem hafði sterkan persónuleika og útgeislun. Kathryn var einmitt ein af þeim sem sker sig úr í framkomu. Öll eiga þau það samt sameiginlegt að hafa verið reiðubúin að gefa allt fyrir samfélagið við Jesú Krist og það er sá vitnisburður sem gefur manni löngun til að finna sama stað í Guði og þau áttu.
Kathryn ólst upp við mikla elsku frá föður sínum en mikla ögun frá móður sinni. Sagði hún síðar að sú elska hefði verið henni ómetanlegt veganesti fyrir samfélagið við Guð sem sinn himneska Föður. Hún ólst einnig upp við trúrækni sem var algeng á þessum tíma og er reyndar enn í dag. Það fól í sér að mæta alltaf á samkomu og rækta trúarlegar skildur út af reglum en ekki út af ást á Jesú Kristi. Guð er góður og er fær um að mæta sínum börnum undir hvaða kringumstæðum sem er. Þegar að Kathryn var fjórtán ára byrjaði hún að hristast og skjálfa á Methodista samkomu sem hún fór á með móður sinni. Þar var ekki venja að fólk kæmi fram að alltarinu til fyrirbæna eða slíkt í þeirri kirkjudeild, en Guð frelsaði hana samt undir þeim kringumstæðum sem að sjálfsögðu breyttu hennar lífi.
Systir hennar sem hét Myrtle giftist ungum manni 1913 sem var trúboði nýútskrifaður úr Biblíuskóla. Dwight L. Moddy sem er einn af virtustu guðsmönnum 19 aldarinnar hafði stofmað þann skóla. Kathryn fékk leyfi frá foreldrum sínum sextán ára gömul til að búa hjá þeim og fara með í trúboðsferðir. Á þeim tíma var hún að læra og vaxa hratt með Guði og Guð að undirbúa hana fyrir það hlutverk sem hún seinna átti eftir að stíga inn í.
Kathryn skildi ekki af hverju Guð valdi hana í það mikla hlutverk að fara út með fagnaðarerindið þar sem sjúkir læknuðust og undur og tákn áttu sér stað. Henni fannst að það væru milljónir hæfari en hún í það hlutverk, en hún sagði samt að hún hefði ekki verið fyrsti kostur Guðs heldur þriðji eða fjórði, sem þýðir að einhverjir sem Guð kallaði voru ekki tilbúnir að greiða það gjald sem þurfti til að ganga alla leið með Guði.
Árið 1934 opnaði Denver vakningamiðstöðin sem Kathryn fór fyrir og fyrstu fjögur árin voru full af fólki. Einnig kom fólk úr kirkjunum í kring á samkomur hjá henni. Það sem byrjaði sem vakningamiðstöð varð fljótt að kirkju, ekki kirkjudeild, þessi kirkja bar ekki nafn og var ekki tengd neinni kirkjudeild.
Kathryn gekk í gegnum miklar þrengingar, á þessum árum missti hún föður sinn sem var mikill missir og hafði mikil áhrif á hana. Hún giftist fráskildum manni og allt fór að halla undan fæti. Þjónusta hennar varð nánast að engu, fólkið tvístraðist og var hún í þessari stöðu næstu átta árin. Sex ár í hjónabandi þar sem hún var stöðugt undir sakfellingu Heilags Anda og á endanum fór hún frá manninum. Í tvö ár var hún að reyna að koma sér aftur inn í fulla þjónustu. Þetta voru án efa með erfiðustu tímabilum lífs hennar, en hún segir sjálf að það var einmitt í gegnum þessar þrengingar þar sem hún dó sjálfri sér. Við sjáum líka í gegnum líf flestra þeirra sem ég hef skrifað um að það eru þrengingarnar sem leiða þau á þann stað sem þau náðu þessum stað í Guði.
Eftir þetta fór hún á fullt inn í þjónustu þar sem hún var tileinkuð Guði líkt og Páll postuli og undur og tákn fóru að gerast. Fyrsta lækningin var þannig að kona sem hafði verið með æxli kom og vitnaði um að daginn áður hefði hún verið á samkomu og hún var svo viss um að Guð hefði læknað hana að hún fór til læknis til að láta skoða sig og æxlið var farið. Lækningarnar voru yfirleitt með þeim hætti að hún var bara að boða fagnaðarerindið og fólk kom síðan upp á svið og vitnaði um lækningarnar sem áttu sér stað út í sal án þess að hún legði hendur yfir neinn. Eftir að þessi kona vitnaði um lækninguna fékk annar maður lækningu á sjón og þetta varð til þess að það fór að koma mikill fjöldi að fólki og undur og tákn áttu sér stað.
Líf hennar skilur eftir sig mikla arfleifð, hún var með sjónvarpsþátt í mörg ár, þjónusta hennar náði víða um heiminn, hún stofnaði góðgerðarsjóð sem varð til þess að kirkjur voru byggðar víða um heiminn. Þjónusta Benny Hinn kemur einnig út frá hennar þjónustu, varð hann fyrir miklum áhrifum af lífi hennar og hélt áfram með sambærilega smurningu. Það er því mikið sem hennar líf hefur áorkað fyrir Guðsríkið og þakka ég Guði fyrir hennar líf og það sem við getum lært af henni.
“Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” Heb 13:7-8
Maria Buelah Woodworth-Etter var bandarískur lækningarpredikari. Predikunarstíll hennar varð síðar fyrirmynd hvítasunnuhreyfingarinnar. Maria fæddist 22. júlí árið 1844 og varð hún 80 ára gömul áður en hún fór heim til Drottins árið 1924.
Foreldrar hennar voru ekki kristnir og því hafði hún enga trúarkennslu fengið þegar hún ólst upp í það minnsta ekki fyrr en foreldrar hennar gengu í lærisveinakirkjuna árið 1854. Fyrsta áfallið í lífi hennar varð árið 1857 þegar faðir hennar fór út á akur til að vinna en var fluttur aftur heim með alvarlegan sólsting sem leiddi hann til dauða. Móðir hennar sat eftir með átta börn og enga framfærslu. Móðir hennar og öll börnin sem voru nógu gömul þurftu að vinna til að framfleyta fjölskyldunni.
Þegar Maria var þrettán ára heyrði hún söguna um krossinn á Lærisveina samkomu og snerist til trúar. Fljótlega eftir að hún snerist til trúar heyrði hún rödd Guðs segja henni að „fara út á þjóðvegina og limgerðin og safna saman týndum sauðum“. Þetta var ruglingslegt fyrir hana þar sem Lærisveinarnir leyfðu ekki að konur myndu starfa fyrir Guðsríkið með þessum hætti. Hún hugsaði með sér að ef hún giftist kristnum manni gætu þau sinnt trúboði saman.
Nokkrum árum síðar giftist hún Philo Horace Woodworth. Þau reyndu að stunda búskap en það mistókst. Hún eignaðist son sem lést mjög ungur að árum. Maria eignaðist svo annan dreng, Fred, sem einnig lést og sjálf var hún nálægt því að deyja. Þegar Georgie dóttir hennar var sjö ára gömul veiktist hún líka og var í hræðilegum sársauka í nokkra mánuði áður en hún einnig dó. Þremur vikum áður en Georgie dó fæddist lítil stúlka að nafni Nellie Gertrude (Gertie). Hins vegar lifði hún aðeins í fjóra mánuði áður en hún dó líka. María barðist sjálf við heilsubrest og hélt oft að hún myndi sjálf deyja. Willie, sjö ára, veiktist og lést innan fárra daga. Innan fárra ára höfðu fimm af börnum þeirra Etter hjóna dáið sem skildi þau eftir í mikilli sorg. Elizabeth Cornelia (Lizzie), elsta stúlkan, var eina barnið sem eftir var.
Allan tímann fannst henni Guð vera að kalla hana til að prédika til hinum týndu. Loks var opnuð leið fyrir hana til að tala á vinafundi. Þegar hún stóð upp til að tala fékk hún sýn um helvíti og það hvernig fólk sem vissi ekki hvaða hættu þar var í. Hún hrópaði á fólk að fylgja Guði og velja að verða hólpinn. Þó að henni fyndist hún kölluð til að þjóna vissi hún ekki hvernig hún átti að gera það. Hún hélt að hún yrði að læra en fékk sýn þar sem Jesús sagði að sálir væru að farast og hún gæti ekki beðið eftir að undirbúa sig. Dag og nótt fann hún fyrir þörf til að kalla syndara til iðrunar. Hún byrjaði loksins í heimabyggð sinni og fór að sjá margar breytingar. Kraftur Guðs féll og syndarar þeystu fram til iðrunar. Að lokum hélt hún níu vakningarsamkomur og stofnaði tvær kirkjur á staðnum.
Þar sem búgarðurinn hafði ekki gengið að óskum fór Maria og eiginmaður út í ferðaþjónustu. María prédikaði hvar sem Guð kallaði og ferðaðist um miðvesturlöndin þar sem hún öðlaðist gott orðspor fyrir kraft Guðs sem fylgdi henni. Ekki löngu eftir að hún hóf þjónustu fannst henni Guð kalla hana til að biðja fyrir sjúkum. Hún var óviss með að gera það vegna þess að hún óttaðist að það myndi draga athyglina frá boðunarkallinu. Jesús fullvissaði hana um að ef hún bæði fyrir sjúkum myndu fleiri frelsast. Hún samþykkti það og fór að biðja fyrir sjúkum. Fundir hennar einkenndust af miklum krafti, lækningum, sýnum og opinberunum. Árið 1884 fékk hún leyfi til að starfa sem predikari af “Churches of God Southern Assembly”, sem hafði verið stofnað af John Winebrenner. Á sumar samkomur hennar mættu yfir 25.000 manns. Hún ferðaðist með tjald og setti það upp þar sem Guð gaf henni tækifæri.
1890-1900 voru erfið ár fyrir Maríu. Kraftaverkin sem fylgdu henni olli ólgu og mætti hún mikilli mótspyrnu. Hún var handtekin í Framingham í Massachusetts fyrir að segjast lækna fólk, en var sleppt þegar margir komu fram með vitnisburð sinn. Í St Louis, Missouri, voru kraftmiklar samkomur á árunum 1890 og 1891, en geðlæknar á svæðinu lögðu fram ákæru á hendur henni fyrir geðveiki og fyrir að halda því fram að hún sæi sýnir frá Guði. Á einum af fundum Mariu árið 1890 spáði maður að nafni Ericson að San Francisco og Oakland yrðu eyðilögð af jarðskjálfta og flóðbylgju 14. apríl. Þetta vakti talsverð læti og fékk hópurinn mikla (neikvæða) fjölmiðlaumfjöllun. 14. apríl kom og fór án lofaðrar eyðingar. Ericson var settur inn á geðdeild vegna spádóms síns og Etter hópurinn yfirgaf bæinn.
Á þessum tíma var Philo var byrjaður að drekka, svaf hjá konum sem komu á samkomurnar og reyndi stundum að stöðva samkomurnar hennar. Árið 1891 skildi Maria við eiginmann sinn fyrir framhjáhald. Hann var bitur og hótaði að skrifa gagnrýna um þjónustu hennar ef hún greiddi ekki meðlag. Hann giftist fljótt aftur og lést síðan innan árs frá skilnaðinum úr taugaveiki. Maria hélt áfram þjónustu sinni með vinum og félögum. Jafnvel hennar eigin kirkjudeild átti í erfiðleikum með það sem var að gerast á samkomum hennar og hún varð fyrir töluverðum þrýstingi um að hætta. Árið 1900 beygði hún sig loks fyrir þrýstingnum og skilaði inn starfsleyfi sínu til Southern Eldership kirkju Guðs. Nú var hún var á eigin vegum.
Maria ferðaðist mikið og hitti Samuel Etter árið 1902 í Arkansas. Þau giftu sig og unnu saman næstu árin. Það er ljóst að María vissi um Azusa Street vakninguna og játaði að þar væri kraftur Guðs að verki. Árið 1912 þjónuðu hún og Samuel á fimm mánaða samkomuherferð í Dallas, Texas fyrir F. F. Bosworth. Mikið var fjallað um þennar samkomur í fréttabréfum hvítasunnunnar og þjónusta hennar blómstraði upp frá því. Hvítasunnumenn töldu að margt af því óvenjulega sem hún hafði upplifað gerði Etter að fyrirmynd í verkum Heilags Anda. Hún var vel þekkt af John G. Lake sem kallaði hana “móður Etter” í prédikunum sínum. Hún hélt áfram að ferðast og þjóna, en Samúel veiktist og lést að lokum í ágúst 1914. Álag sem fylgdi vegna veikinda eiginmanns síns og síðan missi, ásamt álagsmiklum samkomum, olli því að María veiktist sjálf af lungnabólgu í nóvember 1914 Þegar hún var 67 ára og var hún nálægt dauðanum, en Guð gaf henni sýn á sjálfan sig sem sigurvegara dauða og sjúkdóma. Hann sýndi henni að hennar þjónusta væri ekki búin. Í lok janúar 1915 var hún aftur komin aftur út á akurinn.
Að lokum árið 1918 kallaði Guð hana til að stofna kirkju í Indianapolis. Hún notaði hana sem ráðstefnumiðstöð og ferðaðist oft þaðan til að þjóna og predika í miðvesturlöndum. Heilsu hennar hrakaði með árunum og hún lést 16. september 1924, heiðruð sem kona Guðs. Hún er grafin í gröf í Indianapolis við hlið dóttur sinnar og tengdasonar. Áletrun hennar er “Þú sýnir þúsundum miskunn.
“Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” Heb 13:7-8
Granville Oral Roberts var amerískur sjónvarpspredikari, hluti af bæði Hvítasunnuheilagleika hreyfingunni og United Methodist kirkjunum. Hann er talinn einn af forverum karismatísku hreyfingarinnar og var einn þekktasti predikarinn í Bandaríkjunum á hátindi þjónstu sinnar. Hann fæddist 24.janúar árið 1918 og varð 91 árs gamall. Hann fór heim til Drottins þann 15.desember árið 2009.
Þessi grein er í vinnslu og þú getur fengið tilkynningu í tölvupósti þegar hún er tilbúin með því að skrá þig á póstlistann okkar.
Rees Howells var stofnandi “The Bible College of Wales”. Howells fæddist í Brynamman í Carmarthenshire, Wales. Þegar hann var 12 ára hætti hann í skóla og byrjaði að vinna í blikkverksmiðju og kolanámu. Rees Howells er einn sem ég hef bætt við listann af þeim sem mér finnst skilja eftir sig djúp spor fyrir okkur að læra af. Hann fæddist þann 10.október 1879 og varð 70 ára gamall áður en hann lést þann 13.febrúar árið 1950.
Líf Rees Howells er einstakt á þann hátt hversu náið er hægt að lifa og feta í fótspor Jesú Krists. Að lesa ævisöguna um líf hans sem heitir ,,Rees Howells Intercessor’’ eða Rees Howells fyrirbiðjandi, hafði mikil áhrif á líf mitt. Hún gerði það að verkum að ég fékk þrá til að lifa lífi mínu fyrir Guð og skilja allt annað frá.
Rees Howells fæddist í litlum námubæ í South Wales og var sá sjötti inn í ellefu manna fjölskyldu. Hann fæddist á tíma þegar mikil fátækt ríkti og fólk bjó við þröngan kost. Faðir hans þénaði mjög lítið. Hann vann í járnsmiðjunni og síðar í kolanámuni til að reyna að sjá fyrir fjölskyldunni. Þegar strákarnir urðu eldri fóru þeir að vinna til að létta undir með fjölskyldunni. Þrettán ára var aldurinn sem drengir þurftu að hafa náð til að geta unnið í millunni. Rees fékk þó undanþágu þar sem hægt var að skrifa vinnuna á eldri bróður hans fyrsta árið. Þannig lauk skólavistinni við tólf ára aldurinn hjá Rees. Hann var duglegur og gekk vel í vinnu en vinnudagurinn var tólf tíma langur. Þrátt fyrir þröngan kost var fjölskyldan hamingjusöm og mikill kærleikur ríkti á milli allra.
Strax á unga árum hugsaði Rees mikið til Guðs og fór oft til ömmu sinnar sem var trúuð. Honum fannst gott að koma til hennar vegna nærveru Guðs á heimili hennar. Hann var orðinn hluti af söfnuði þrettán ára og missti ekki úr samkomu. Þegar Rees fór að vaxa úr grasi vildi hann sjá heiminn og eignast peninga. Þegar hann heyrði af mönnum sem höfðu farið til Bandaríkjanna þar sem launin voru mun hærri var hann fljótur að taka ákvörðun um að fara og reyna fyrir sér. Áður en ferðalagið hófst talaði Guð til hans á samkomu þegar að predikarinn var að lesa úr Hebreabréfinu 12 kafla.
Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum frammundan. Heb 12:1
Predikarinn sagði ungi maður þú ert kannski að fara að heimann þar sem mamma þín og pabbi sjá þig ekki en vottar Guðs sjá þig og Guð sér þig. Rees fékk tók þetta sterkt til sín og minntist þessa oft þegar að freistingarnar gerðu vart við sig.
Rees átti frænda sem hafði farið til Bandaríkjanna og fengið vinnu. Rees fór til frænda síns og fékk vinnu í blikksmiðju. Þar gekk honum vel og gekk hann í söfnuð þar og missti ekki af samkomu, á þessum tímapunkti fóru nýjir hlutir að gerast. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að Rees leit á sig sem góðan og heiðvirðan kristinn mann sem hafði alltaf mætt á sínar samkomur, unnið sína vinnu, komið vel fram við alla og ekki viljað eiga neinn hlut í fýsn heimsins. Þessi sjálfsréttlæting olli því að hann brást ekki vel við í fyrstu þegar að frændi hans spurði hann hvort hann væri endurfæddur, enda leit hann svo sannarlega ekki á sig sem verri mann en frænda sinn. Frændi hans lét hann ekki í friði með þetta og hann fór að hugleiða hvort hann ætti í raun ekki þetta persónulega samfélg við Guð. Það sem að hann ætti væri í raun og veru bara trúrækni sem frelsar engan mann. Það segir í Biblíunni að við verðum að fæðast að nýju annars munum við ekki komast í Guðs ríki. Þetta sá Rees og hann áttaði sig á því að það var stórt haf á milli hans og Guðs.
Guð mætti honum stuttu eftir þetta með því að frelsa hann og endurfæða. Sjá það gamla varð að engu og nýtt varð til. Eins og ég sagði þá hét bókin “Rees Howells Intersessor”. Guð byrjaði að móta líf Rees og kallaði hann í þjónustu fyrirbiðjanda. Árið 1904 snéri hann aftur til Wales. Það var á þeim tíma þegar vakninginn í Wales var að hefjast og stórkostlegir hlutir byrjaðir að gerast. Hver einasta kirkja var full að fólki, fullorðnir harðjaxlar grétu af iðrun og krárnar urðu að loka vegna þess að það voru engir viðskiptavinir.
Rees féll vel inn í þessa vakningu þar sem hann hafði endurfæðst og var farinn að upplifa Guð á nýjan hátt. Ekki leið á löngu að hann var komin á fullt fyrir Guð í miðri vakningu.
Guð kallaði hann og þá sem voru með honum til að biðja fyrir sérstökum atburðum í kringum síðari heimsstyrjöldina. Þessar bænir urðu til þess að gangur stríðsins breyttist. Þessi hópur leiddur af Guði báðu fyrir mjög nákvæmum atriðum í stríðinu og heyrðu svo fréttaflutning í útvarpinu hvernig nákvæmlega þau atriði fóru í samræmi við bænirnar. Guð kallaði hann og konuna hans síðar til Afríku þar sem undur og kraftaverk flæddu í gegnum hans líf og vakning braust út. Þau urðu að skilja nýfætt barnið sitt eftir og þar sem þau voru reiðubúin að gera það, sagði Guð við þau að hann myndi frelsa 100.000 þúsund sálir í Afríku fyrir þeirra fórn. Guð leiddi líf hans yfirnáttúrlega til að standa í skarðinu fyrir lífum fólks. Guð notaði hann til að stofna Biblíuskóla í Wales þegar mikil fátækt ríkti og Guð leiddi yfirnáttúrulega inn fjármagn til að byggja þennan skóla og stendur sá skóli enn. Margt annað gerðist sem ég hef ekki minnst á hér en að lesa um svona kraftaverk skilur mikið eftir sig fyrir alla þá sem tilheyra Jesú.
“Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” Heb 13:7-8
Smith Wigglesworth var breskur predikari sem var áhrifamikill í upphafi hvítasunnuhreyfingarinnar. Hann fæddist þann 8.júní árið 1859 og varð 87 ára gamall áður en hann fór til Drottins þann 12.mars 1947.
Smith var uppi á sama tíma og hvítasunnuvakningin og vakningin í Wales í kringum 1900. Stórkostlegir hlutir voru samt byrjaðir að gerast aðeins fyrir þann tíma, þar sem Guð var að undirbúa fólk fyrir það sem koma átti. Það má segja að andrúmsloftið í heiminum hafi verið orðið fullt af smurningu Guðs. Menn og konur voru opin fyrir því sem Guð var að fara gera og má segja að sá fyrsti hafi verið Alexander Dowie sem þið getið einnig lesið um á síðunni.
Smith ólst upp við mikla fátækt og þegar hann var orðinn 6 ára gamall þá þurfti hann að fara að vinna og lærði hann því ekki að lesa og skrifa. Það var mikil vinna og þurfti hann jafnvel að vinna í 12 tíma á dag. Eitt skipti sagði hann við föður sinn á leið heim úr vinnu að 12 tímar væru lengi að líða í vinnunni, og faðir hans horfði á hann með tárin í augunum. Móðir hans og faðir voru ekki trúuð en amma hans tók hann alltaf með í kirkju. Þegar hann var 8 ára þá frelsaðist hann með djúpri opinberun um það sem Jesús hafði dáið og risið upp frá dauðum fyrir hann og alla sem vilja.
Yngri ár hans voru full af hungri til Guðs og þráði hann að geta lesið Biblíuna. Þegar hann varð 23 ára giftist hann Mary Jane eða Polly eins og hún var kölluð. Þau kynntust í hjálpræðishernum og eignuðust þau 5 börn. Hún kenndi Smith að lesa og gat hann því farið að lesa Biblíuna eftir að þau kynntust. Þau voru bæði mjög trúuð og höfðu mikla neyð fyrir stað í Bradford sem hafði enga kirkju og opnuðu þar þjónustu og byrjuðu að þjóna saman.
Polly sá um að predika á meðan að Smith bað og svo þjónuðu þau saman til fólksins. Ástæðan fyrir því að hann predikaði ekki var aðalega vegna erfiðleika hans við að tala, en það átti eftir að breytast. Þegar vakningin byrjaði í Wales og hafði farið um allt, kom hann á samkomu í Sunderland þar sem fólk var að fyllast heilögum anda og tala tungum, hrópaði hann á Guð eftir því að skírast í Heilögum Anda og Guð mætti honum. Eftir að Smith kom til baka þá tók Polly á móti honum með þeim orðum að hún væri alveg jafn mikið skýrð í Heilögum Anda og hann þótt hún talaði ekki tungum. Hún sagði að hann gæti sjálfur predikað næsta sunnudag. Smith predikaði með ákveðni og öryggi eitthvað sem Polly hafði ekki séð áður og stuttu eftir þetta voru hundruðir farnir að tala í tungum á svæðinu, þar á meðal Polly.
Stuttu eftir þessa atburði deyr Polly og fer heim til Drottins. Smith fer á fullt út í þjónustu og verður einn eftirsóttasti predikarinn í hvítasunnuvakningunni. Það er ekki mikið talað um hvernig hann tók því að missa konuna sína, en við getum trúað því að það hafi verið mikill missir. Svo það voru mis miklar þrengingar sem þetta Guðsfólk lenti í, Smith glímdi einnig við gífurlega sársaukafulla nýrnasteina á ákveðnu skeiði og var það svo sársaukafullt að hann hreinlega lág og vellti sér úr sársauka á milli þess sem hann var að predika. Við sjáum þetta einnig með því að skoða líf lærisveinanna, það voru sannarlega þrengingar sem fylgdu þeim sem trúa.
Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.
Við sjáum að það mæðir á þessu mikla Guðsfólki en það var samt reiðubúið að gefa líf sitt fyrir fagnaðarerindið. Það var eins með lærisveinanna þeir voru lamdir, ofsóttir, settir í fangelsi en samt gáfu þeir líf sitt, jafnvel til dauða. Óvinurinn hatar þá sem finna þennan stað í Guði og leggur sig allan fram við að drepa þá, hrakyrða þá og ofsækja.
Smith var sérstakur. Hann var mjög óheflaður og tók á syndinni og sjúkdómum á óvenjulegan hátt. Hann átti það til að spyrja fólk hvar því væri illt og svo rak hann hnefann á þann stað með krafti á meðan hann hastaði á djöfullinn og fólk fékk fullkomna lækningu. Eitt skipti þá var dauðvona kona sem var komið með á sjúkrarúmi, hún gat ekki staðið því hún var svo veikburða. Smith tók hana af rúminu og skipaði henni að standa, hann studdi við hana og sleppti síðan og hún hrundi í gólfið, þetta endurtók hann nokkur skipti. Fólkið sem hafði komið með konuna hrópaði að hringt yrði á lögregluna. Smith var hinn rólegasti og í 5 skiptið stóð konan og var alheilbrigð. Mörg lík dæmi eru til þar sem hann tók mjög óvenjulega á málum, eitt skiptið var ungur maður á samkomu þar sem hann var að predika. Smith sá illan anda í honum og andinn vissi að hann hefði séð sig og ætlaði út ásamt manninum sem hann var í. Smith hélt nú ekki stökk niður af pallinum og tæklaði manninn í hurðinni og kastaði út af honum illa andanum og maðurinn leystist. Þetta eru aðeins brot af mörgum stórkostlegum frásögum í kringum líf hans og hvet ég ykkur því endilega til að kynna ykkur líf hans betur, því það er mjög gaman að lesa um hann.
Þrátt fyrir að Smith hafi ekki verið sá sem átti þátt í byrjun vakningarinnar í Wales eða í hvítasunnuvakningunni. Þá var hann einn af þekktustu Guðsmönnum síns tíma, hann fór um 1922 til Ástralíu og Nýja Sjálands þar sem vakning braust út og á nokkrum mánuðum sá hann þúsundir frelsast og margar hvítasunnukirkjur fæðast. Þjónustu hans fylgdu þvílík kraftaverk. Tákn og undur, hinir dauðu risu upp og fólk grét jafnvel og gaf Guði líf sitt bara á að vera nálægt honum án þess að hann segði orð, svo mikill var krafturinn.
Guð er megnugur að gera allt þetta og meira. Ég trúi því með öllu sem í mér er að Guð sé að fara starfa með slíkum krafti aftur og að hann sé að leita að fólki sem er tilbúið að gera það sem til þarf.
Við sjáum það á því að skoða líf þess fólks. Það var reiðubúið að deyja sjálfum sér, skilja við það sem heimurinn hefur upp á að bjóða og trúði með öllu sem í því var að það sem Biblían segir sé sannleikur og að Jesús Kristur sé sá sami í gær, í dag og um aldir.
Þetta er það sem við þurfum að vera reiðubúin að gera ef við viljum að Guð noti okkur á þennan hátt.
Ef þú svarar játandi, byrjaðu þá strax í dag að leita Guðs af öllu hjarta, biddu hann um að sýna þér hvað þú þarft að gera og biddu hann um náð til að geta hlýtt því sem hann fer fram á. Allt getur sá sem trúir!
“Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” Heb 13:7-8