Evan Roberts og velska vakningin árin 1904–1905

Evan Roberts var einn af þremur sonum og fimm dætrum sem fæddust Henry og Hönnu Roberts. Hann ólst upp á kalvínísku meþódistaheimili og var trúrækið barn sem sótti kirkju reglulega og lagði ritningar á minnið á kvöldin. Frá 11 til 23 ára aldurs vann hann í kolanámunum með föður sínum. Roberts vann einnig um tíma hjá frænda sínum sem lærlingur í járnsmíði. Sem ungur maður var Roberts þekktur fyrir að eyða mörgum klukkustundum í að biðja í hverri viku, bæði persónulega og á samkomum.

Til að gera betur grein fyrir lífi og þjónustu Evan Roberts þurfum við að fara aðeins til baka í tíma. Evan Roberts var ekki sá eini sem Guð notaði til að kveikja vakningarelda í Wales. Joseph Jenkins var einnig virtur leiðtogi í vakningunni sem hafði skipulagt ráðstefnu árið 1903 í New Quay þar sem þema ráðstefnunnar var “Aukin hollusta við Krist”. Í febrúar árið eftir eða árið 1904 var ung kona að nafni Florrie Evans sem fylgdi Jenkins heim eftir eina sunnudagssamkomuna og sagði við hann “Ég sá heiminn í prédikun kvöldsins og ég get ekki lifað svona lengur.” Jenkins sagði henni að viðurkenna vald Krists yfir lífi sínu. Á ungmennafundi næsta sunnudag stóð Florrie upp og sagði „Ég elska Drottin Jesú af öllu hjarta“. Yfirgnæfandi tilfinning um nærveru Guðs ríkti á fundinum og á síðari fundum sem kveikti í tveimur öðrum ungum konum, Maud Davies og May Phillips. Unga fólkið fór að heimsækja aðrar kirkjur til að deila blessuninni. Segja má að þetta hafi verið upphaf velsku vakningarinnar árið 1904.

Annar öflugur leiðtogi í vakningunni sem vert er að minnast á var Seth Joshua. Joshua snerist til trúar á samkomu Hjálpræðishersins og fór strax að boða fagnaðarerindið. Margir komu til Drottins í gegnum þjónustu hans.

Jospeh Jenkins var brennandi fyrir Drottinn og fór á milli bæja og predikaði fagnaðarerindið um Jesú Krist. Evan var uppörvaður af því sem hann heyrði að var að gerast í New Quay hjá Joseph og á öðrum stöðum í Wales. Evan ákvað að fara til Newcastle Emlyn til að undirbúa sig undir þjónustu, þar var hann með Sydney Evans vini sínum sem einnig spilaði veigamikið hlutverk í vakningunni. Sögurnar um að margir væru að frelsast í New Quay og Blaenannerch voru byrjaðar að heyrast um allt og Evan Roberts gat ekki beðið eftir því að byrja að þjóna. Þegar Evan heyrði að Joseph væri með samkomur í Blaenannerch ákvað hann að fara ásamt fleirum og skrifar svo um reynslu sína þar;

“Ég fann að þegar ég fór á samkomuna að ég var knúinn til að biðja. Þegar samkoman hófst báðu margir og ég spurði Heilagan Anda: „Á ég að biðja núna? „Nei,“ sagði Andinn. Skömmu síðar kom eitthvað dásamlegt yfir mig. Eftir að margir höfðu beðið fann ég einhverja lifandi orku eða kraft koma inn í brjóstið á mér, fæturnir titruðu ógurlega; þessi lifandi orka jókst og jókst eftir því sem hver á eftir öðrum baðst fyrir þar til hún var næstum því að springa út úr mér og ég spurði Andann “Á ég að biðja núna?” Þegar næsti maður hafði lokið við að biðja, bað ég. Hefði ég ekki beðið, þá hefði ég sprungið. Hvað suðaði í brjósti mér? Versið, “En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor” Ég féll á hnén, með handleggina útrétta á sætinu fyrir framan mig, sviti streymdi niður andlitið á mér og tárin streymdu hratt þar til ég hélt að blóð kæmi út. Magdalen Phillips stóð mér hægra megin og Maud Davies til vinstri. Þvílíkur kraftur í um tvær mínútur. Ég hrópaði – „Beygðu mig, beygðu mig, beygðu mig; Ó! Ó! Ó! Ó! Ó!” … Það sem kom upp í hugann eftir þetta var dómsdagurinn. Þá fylltist ég samúð með fólkinu sem verður að beygja sig á dómsdegi og ég grét. Eftir þessa reynslu var neyðin fyrir sálum gríðarlegt. Mér fannst ég verða að fara um allt Wales til að segja fólkinu frá frelsaranum.”

Þarna hófst þjónusta Evan Roberts og fór hann að finna sterkt fyrir leiðsögn Heilags Anda sem mætti honum persónulega og sagði meðal annars að “Guð ætlaði að lyfta allri Wales upp til himna” og hann fór að tala út og trúa að Guð ætlaði að frelsa yfir 100.000 sálir.

Vakningin

Það sem gerist í framhaldinu er einstakur viðburður sem átti eftir að breyta öllum heiminum. Þetta var engin venjuleg vakning. Guð mætti og gerði þvílík tákn sem mjög fljótlega urðu að fyrirsögnum í öllum helstu dagblöðum, ekki bara í Wales heldur út um allan heim. Áður en vakningin hófst er vert að minnast á að andlegt ástand Wales var mjög dökkt. Barir og skemmtanir voru í blóma, allt snerist um fótbolta, hanaslagi, slagsmál og veðmál hjá millistéttinni. Morð, nauðganir og aðrir glæpir voru í miklum vexti og virtist sem yfirvöld væru að missa taumana á ástandinu. Margir unnu í kolanámunum sem var erfið vinna fjarri fjölskyldunni og þegar kom að útborgunardegi voru margir sem sólunduðu laununum í áfengi og veðmál, börnin og eiginkonurnar sátu heima í sárri fátækt.

The Four Tenets

Í upphaf þjónustu sinnar leggur Evan Roberts niður fjögur atriði sem síðar urðu grundvallaratriði vakningarinnar. Evan trúði því að uppfylla þyrfti þessi fjögur atriði áður en vakning myndi koma af fullum þunga, en þau voru;

  1. Játa verður allar syndir fyrir Guði og iðrast fyrir þær. Kirkjan verður að hreinsast, Brúðurin verður að vera án bletts, þannig að það er ekkert rúm fyrir málamiðlanir með synd. Ef það er eitthvað í lífi okkar sem við erum ekki viss með hvort er gott eða slæmt, losaðu þig við það!
  2. Það má engin hula myndast milli okkar og Guðs vegna fyrirgefningarleysis. Hefur þú fyrirgefið öllum? Ef ekki, ekki ætlast til að fá fyrirgefningu fyrir þínar syndir. Ritningin er skýr um að við fáum ekki fyrirgefningu ef við fyrirgefum ekki. Fyrirgefningarleysi aðskilur okkur frá Guði líkt og synd.
  3. Við verðum að hlýða Heilögum Anda. Gerðu það sem Andinn leggur á hjarta þitt. Snögg, óhindruð hlýðni er skilyrði ef við ætlum að vera notuð af Honum.
  4. Það verður að vera opinber játning á Kristi sem frelsara. Þetta er ekki eitthvað eitt skipti eftir að við frelsumst eða skýrumst, heldur stöðugur vitnisburður okkar sem Kristið fólk.

Eftirvæntingin jókst með hverri samkomu í Moriah Chapel þar sem Evan leiddi og nærvera Guðs jókst. Samkomurnar fóru að verða lengri og lengri þar sem fólk fann að eitthvað nálgaðist og það vildi alls ekki missa af því sem Guð var að gera.

Eldurinn fellur

Síðla kvölds þann 7.nóvember 1904 voru nánast allir á samkomunni í Moriah Chapel gráti næst, margir grétu hástöfum og um miðnætti var kraftur Guðs slíkur að það héldu honum engin bönd. Fólkið hafði aldrei upplifað aðra eins iðrun og gleði á sama tíma. Það var ekki hægt að aðgreina þá sem grétu í iðrun yfir syndum sínum og þeim sem grétu af gleði yfir nærveru Guðs. Það var ekki fyrr en eftir 3:00 um nóttina að tilraun var gerð til að enda samkomuna. Næsta kvöld kom fólk snemma til að tryggja sér sæti. Allir voru að tala um að vakning væri hafin, jafnvel önnur Hvítasunna. Samkoman þetta kvöld var öðruvísi og fólk fór heim um kvöldið og fann að Guð var að vinna eitthvað djúpt verk.  Þessa nótt leiddi Guð bæjarbúa til sannrar iðrunar. Evan og Sidney áttu erfitt með að sofna um nóttina og heyrðu skarkala á götum úti um kl. 6:00 þann morgun. Þegar þeir fóru út að gá voru allir í bænum á leið til bæna í samkomuhúsinu. Andi Guðs hafði lagt á alla í bænum samstundis að fara á bænastund. Engin hafði nokkurn tíma heyrt af slíku og þetta var rétt byrjunin.

Fyrsta fréttafyrirsögnin birtist í “The Western Mail of Cardiff, Wales”

MIKILL FJÖLDI DREGST TIL LOUGHOR – SAMKOMUR SEM VARA TIL kl. 2:30 Á NÓTTUNNI

“Stórmerkileg trúarvakning á sér stað núna í Loughor. Um nokkurra daga skeið hefur ungur maður að nafni Evan Roberts verið að valda óvæntum tíðindum í Moriah Chapel. Fólk umlykur staðinn og kemst ekki inn vegna ásóknar. Þessi eftirvænting hefur leitt til þess að vegurinn að kirkjunni fyllist af fólki frá einum enda til annars. Roberts sem talar á velsku segir að hann viti ekki hvað hann muni segja, heldur vitnar um að þegar hann er í nærveru Heilags Anda, segir Andinn honum um hvað hann eigi að tala, að hann sé einungis milliliður visku Guðs. Prédikarinn talar svo í krafti Andans í miklum móð sem skilur hlustendur eftir djúpt snortna. Margir sem höfðu hafnað Kristinni trú eru að snúa aftur til kirkju og að því sem Guð er að gera. Eitt kvöldið hafði ungi prédikarinn svo mikil áhrif, að löngu eftir að hann lauk ræðu sinni, hélt fólkið áfram að syngja og lofa Drottinn fram yfir kl. 02:30 um nóttina. Búðareigendur eru að loka verslunum sínum fyrr á daginn til að freista þess að tryggja sér sæti á samkomunum. Stál- og járnsmiðir gefa sér ekki tíma eftir vinnu til að hafa fataskipti heldur flýta sér á samkomurnar í óhreinum vinnufötunum.”

Ávextir vakningarinnar

Það eru margar sögur sem hægt er að segja í viðbót en það gefur auga leið að krafturinn var slíkur að vakningin dreifðist sem eldur um allt land og ekki bara Wales, heldur fylktist fólk alls staðar að úr heiminum sem heyrði af því sem Guð var að gera. Óteljandi samkomur af undrum og táknum þar sem nærvera Guðs var svo sterk að fólk jafnvel baðst undan að finna fyrir meiri krafti, þar sem það hélt að það myndi hreinlega deyja undan kraftinum. Vitnisburður af áþreifanlegri nærveru Guðs sem sást með berum augum að jafnvel púltið þar sem prédikarinn stóð var í móðu. Vakningin í Wales er einstakur viðburður þar sem Guð steig niður til jarðar og starfaði með óyggjandi hætti sem vakti athylgi um allan heim og varð síðar kveikjan að Hvítasunnuvakningunni við Azusa Street í Kaliforníu árið 1906. Sú vakning átti eftir að hafa enn meiri áhrif um allan heim og hefur enn áhrif allt fram á okkar dag.

Annað áhugavert við vakninguna í Wales er að hún var ekki bundin við einhvern einn leiðtoga þótt Evan Roberts hafi verið valinn sem einskonar frumkvöðull. Í upphafi vakningarinnar var einnig eins og það skipti engu máli hvort Evan Roberts væri viðstaddur, stundum kom hann seint og læddist inn og fólk virtist ekki hugsa mikið út í það. Stundum var hann með prédikun stundum sat hann alla samkomuna í bæn. Heilagur Andi stjórnaði og fólkið fann það greinilega og lofaði Drottinn langt fram á nætur.

Vakningin í Wales stóð í rétt um 2 ár. Eftir að vakningunni lauk upplifði Evan Roberts að fólk horfði of mikið til hans og vildi hann ekki varpa skugga á Jesú Krist. Hann dróg sig því að mestu í hlé frá opinberri þjónustu og varði restinni af lífi sínu í fyrirbænaþjónustu fyrir líkama Krists, ásamt því að skrifa efni til að uppörva trúaða. Þetta er því miður algengt þegar kraftur Guðs tekur sér þvílíka bólsetu í mönnum og konum að fólki hættir til að tilbiðja manneskjuna í stað Drottins.

Áhrifin af vakningunni í Wales voru svo kraftmikil og ef við eigum að nefna nokkur dæmi þá má nefna; að lögreglan varð nánast aðgerðarlaus því nánast allir glæpir hurfu, fangelsin tæmdust, barir lokuðu því það var engin sem nýtti sér þjónustuna lengur, þinghaldi var oft frestað því þingmenn voru á samkomum, mikil vandræði urðu með hrossin þar sem þau hættu að hlýða skipunum, þau voru svo vön blótsyrðum sem skipunum og þegar að allir hættu á yfirnáttúrulegan hátt að blóta þurfti að kenna hestunum upp á nýtt. Yfir 100.000 sálir frelsuðust í Wales eins og Evan hafði sagt fyrir um og mun fleiri þar sem vakning dreifði sér til annarra landa. Jafnvel fótboltinn, hugarfóstur þjóðarinnar og menn töluðu ekki um annað, leystist upp og íþróttaleikvangarnir sátu tómir þar sem áhuginn var ekki lengur til staðar, fótboltastjörnurnar sjáflar á samkomum og allir með hugan við vakninguna. Fólk bað fyrir ástvinum eitt kvöld og á næstu samkomu var viðkomandi mættur á samkomu og gaf Jesú líf sitt. Bænastundirnar urðu vinsælli en samkomurnar og þeim mun nákvæmari sem bænirnar urðu, því nákvæmari urðu bænasvörin. Aðal áhersla vakningarinnar voru alltaf hinir ófrelsuðu.

Dánartilkynning Evans Roberts í The Western Mail dró feril hans þannig saman: „Hann var maður sem hafði upplifað undarlega hluti. Í æsku sinni hafði hann virst halda þjóðinni í lófa sér”. Hann fæddist 8.júní 1878 í Loughor í Wales og varð 73 ára gamall, en hann lést 29.september árið 1951.

Þetta eru einstakir viðburðir sem vekja í hjarta mér slíka trú að ég get ekki annað en hrópað á Guð daglega að gera þetta aftur í dag á okkur tímum á Íslandi og út um allan heim. Þessi grein gefur aðeins litla innsýn inn í öll þau undur og tákn sem Guð gerði á þessum tímum og hvet ég ykkur til að kynna ykkur betur þessar trúarhetjur og vakningar svo það megi kveikja eld í þínu hjarta sem brýst út í vakningu í þínu lífi og til allra þeirra sem í kringum þig eru!

Aðal heimild: The Power to Change the World

Sigurður Júlíusson