Vissir þú að þú ert staddur í miðju stríði? Þú kannski sérð það ekki, en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að í hinu andlega hefur geysað stríð í þúsundir ára og þetta stríð verður alvarlegra með hverju árinu. Það virðist vera að flestir hafi litla eða enga skynjun á að allt í kringum okkur eru andlegar verur með þann eina tilgang að stela, slátra og eyða. Satan hefur með blekkingum afvegaleitt þjóðirnar og látið þær halda að hann sé ekki til. Hans meginmarkið er að fólk glatist og komist ekki til þekkingar á sannleikanum, sem er andstæðan við markmið Guðs sem vill að allir verði hólpnir, en til þess er aðeins ein leið.
Jóh 14:6
Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.
Þegar Guð gekk um á meðal okkar í holdi sem Jesús Kristur, fyrir um 2000 árum var andaheimurinn mun sýnilegri. Illu andarnir töluðu beint við Jesú og sögðu meðal annars; “ert þú kominn að kvelja okkur fyrir tímann?” Andarnir töluðu jafnvel við fólk eins og maður talar við mann. Jesús gaf lærisveinunum vald yfir óhreinum öndum þegar Hann var að þjálfa þá og sagði þeim að fara út tveir og tveir saman. Þeir komu til baka mjög spenntir eftir að hafa æft sig og sögðu frá því hvernig illu andarnir voru þeim undirgefnir. Skoðum nokkur vers þessu til staðfestingar.
Matt 10:1
Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóma og veikindi.
Lúk 10:1 & 17
Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til.
Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni.
Matt 12:43-45
Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. Þá segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð.
Við erum í stríði en hvar er barist?
Jesú sagði sjálfur að Hann kom ekki til að færa frið heldur sverð. Það er herkvaðning í gangi og Guð er að leita að sjálfboðaliðum til að berjast trúarinnar góðu báráttu. Áður en barist er í stríði þarf að velja stað þar sem er barist, sameiginlegur vígvöllur þar sem einn mun standa uppi sem sigurvegari. Þessi staður var valinn fyrir óra löngu síðan og hefur ekki breyst. Hugur okkar er vígvöllurinn. Það er þar sem djöfullinn og hans andar skjóta örvum sínum og reyna að fá þig til að taka við þeim, samþykkja þær og bregðast við þeim. Djöfullinn hefur í raun ekkert vald nema það sem þú samþykkir og í raun á það sama við um Guð. Hann gaf þér frjálsan vilja og svo hefst stríðið, ætlar þú að hertaka sérhverja hugsun til hlýðnis við Guð eða ætlar þú að hlýða Satan. Þarna vinnur þú eða tapar stríðinu!
2.Kor 10:3-5
Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt, því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi. Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist.
Dæmi um árásir frá hinu illa eru að fá þig til að tala illa um aðra, tala illa um sjálfan þig, vera neikvæður, allar þær hugsanir sem þú bregst við aftur og aftur og framkvæmir verða að vana og ef þú brýtur ekki það hugsanamynstur getur það haft skelfilegar afleiðingar. Hér má nefna ótta, kvíða, neikvæðni, óhollar venjur og allar fíknir. Láttu ekkert ná valdi yfir þér segir Orðið.
Hvernig fáum við vald yfir illum öndum?
Byrjum á því að spyrja okkur hvað er vald? Tökum dæmi um lögreglumann sem er ósköp venjulegur maður i sjálfu sér. Hann hefur ekki styrk í eigin mætti til þess að stöðva til dæmis flutningabíl sem kemur á fullri ferð, en ef hann er í lögreglubúning sem sýnir að hann er hluti af lögreglunni þá snarstöðvar flutningabíllinn við bendingu mannsins, farartæki sem vegur mörg tonn. Það er vegna þess að maðurinn er með umboð og vald frá æðri stofnun, það skiptir ekki máli hvort hann hefur átt slæman dag, brugðist með einhverjum hætti, þegar hann fer til starfa er valdið nákvæmlega eins. Sama á við um hermann, háttsettur hersöfðingi hefur gríðarlega valdamikla stöðu og allir sem eru undir honum í titli og stöðu hlýða honum um leið og skipun berst. Þessi lögmál eru eins í andaheiminum og því andlega stríði sem er í gangi í dag. Hundraðshöfðinginn í Biblíunni skildi þetta.
Matt 8:5-10
Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn. Jesús sagði: Ég kem og lækna hann. Þá sagði hundraðshöfðinginn: Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Gjör þetta, og hann gjörir það. -Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.
Umboð og vald kemur í gegnum samband
Jer 23:32
Ég skal finna spámennina, sem kunngjöra lygadrauma segir Drottinn og segja frá þeim og leiða þjóð mína afvega með lygum sínum og gorti, og þó hefi ég ekki sent þá og ekkert umboð gefið þeim, og þeir gjöra þessari þjóð alls ekkert gagn segir Drottinn.
Guð er almáttugur og veit að ekki öllum er treyst fyrir slíku valdi sem Jesús hafði. Við verðum að vera eins og Jesús til að öðlast þannig vald. Þegar Jesús gekk um jörðina var það til að sýna okkur hvernig fullþroskaður sonur Guðs lýtur út, svo við gætum fetað í Hans fótspor. Orðið segir að Hann var fyrirrennari margra bræðra og þeir sem raunverulega myndu trúa og fara alla leið með því að deyja sjálfum sér, myndu gera sömu verk og jafnvel meiri. Það er til staður í Guði þar sem andarnir skjálfa fyrir þér og geta ekkert annað gert en að flýja þegar þú rekur þá út, en til þess þarf umboð og vald frá Guði. Það sem fæst aðeins með persónulegu sambandi og hlýðni. Margar trúarhetjur sem farið hafa á undan okkur sýndu að þetta er mögulegt og getur þú lesið um nokkrar af þeim hetjum á síðunni. Einnig voru menn á tímum Jesú sem reyndu að kasta út illum öndum í eigin mætti en það fór ekki vel.
Pos 19:-13-17
En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar. Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests. En illi andinn sagði við þá: Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér? Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu. Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.
Falskir spámenn forðum daga fóru einnig í eigin mætti en fengu makleg málagjöld villu sinnar og svo mun einnig verða með fálsspámenn í dag sem kenna afbakað Orð Guðs og afvegaleiða fólk frá sannleikanum með táknum, undrum og jafnvel kraftaverkum. Ef boðskapurinn er ekki 100% í samræmi við Orð Guðs þá skaltu ekki taka við því, hversu mikil sem undrin og táknin eru. Satan er blekkingameistari og eitt af hans aðal vopnum er að nota ritningarnar. Hann þurfti aðeins að afbaka eitt orð sem Guð hafði sagt við Evu til að allur heimurinn féll. Djöfullinn setur lygina og blekkinguna í búning sannleikans svo erfitt er að greina á milli. Þegar hann freistaði Jesú í eyðimörkinni sagði hann “Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini.” Jesús mun segja á hinsta degi aldrei þekkti ég yður víkið frá mér illgjörðamenn.
1. Jóh 3:1 & 5-6
Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.
Falsspámennirnir heyra heiminum til. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá. Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum vér sundur anda sannleikans og anda villunnar.
Matt 24:24
Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.
Baráttan er ekki við menn af holdi og blóði
Þetta verðum við að skilja og við verðum að hafa stjórn á okkur. Við megum ekki berjast í eigin mætti við menn eða rjúka upp í reiði þegar við verðum fyrir mótlæti. Hugsaðu alltaf, hvað er raunverulega á bakvið. Óvinurinn notar alla sem hann getur, okkar nánustu, utanaðkomandi aðila, vini, óvini. Hvern sem hann nær valdi yfir með því að skjóta inn hugsunum sem viðkomandi bregst við og framkvæmir í stað þess að taka vald yfir og brjóta niður. Við sigrum aðeins með bæn, visku frá Guði, kærleika, miskunnsemi, auðmýkt og stundum þarf föstu til.
Matt 17:19-21
Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út? Hann svaraði þeim: Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.
Talað er um að það taki 21 dag eða þrjár vikur að brjóta hugsanamunstur. Í dag er búið að rannsaka hvernig heilinn í okkur virkar og er t.d. öll markaðssetning byggð á sálfræði í dag og hvernig við bregðumst við, samfélagsmiðlar, tölvuleikir og fleira er hannað til að skapa fíkn og fá þig til að ánetjast. Hvað er í fyrsta sæti í þínu lífi og fær mest af tíma þínum, er það Guð og áætlun Hans með líf þitt eða eitthvað annað.
Stríðið er raunverulegt og þú hefur val í dag til þess að taka þína stöðu. Fyrsta skrefið er að taka við Jesú kristi ef þú hefur ekki gert það. Næsta skref er taka þér þína stöðu, lesa Orðið og læra á þau verkfæri sem Guð hefur gefið okkur til að sigra. Því næst fara út að æfa þig með öðrum trúuðum, gera köllun þína og útvalning vissa.
Átt þú lifandi trú á Jesú Krist?
Ef ekki hvet ég þig til að fara með þessa bæn og vertu svo í sambandi við okkur ef þú vilt eiga samfélag við aðra trúaða.
“Ég trúi því að Jesús Kristur hafi dáið fyrir mig og að hann hafi risið upp frá dauðum. Jesús ég bið þig um að koma inn í hjarta mitt á þessu augnabliki og frelsa mig frá syndum mínum. Jesús ég býð þig velkominn inn í líf mitt og ég bið þig um að leiða mig héðan í frá. Ég bið þig að fylla mig af anda þínum, Heilagi Faðir, ég þakka þér að ég er nú þitt barn.”
Guð blessi þig – Sigurður Júlíusson