Smith Wigglesworth var breskur predikari sem var áhrifamikill í upphafi hvítasunnuhreyfingarinnar. Hann fæddist þann 8.júní árið 1859 og varð 87 ára gamall áður en hann fór til Drottins þann 12.mars 1947.
Smith var uppi á sama tíma og hvítasunnuvakningin og vakningin í Wales í kringum 1900. Stórkostlegir hlutir voru samt byrjaðir að gerast aðeins fyrir þann tíma, þar sem Guð var að undirbúa fólk fyrir það sem koma átti. Það má segja að andrúmsloftið í heiminum hafi verið orðið fullt af smurningu Guðs. Menn og konur voru opin fyrir því sem Guð var að fara gera og má segja að sá fyrsti hafi verið Alexander Dowie sem þið getið einnig lesið um á síðunni.
Smith ólst upp við mikla fátækt og þegar hann var orðinn 6 ára gamall þá þurfti hann að fara að vinna og lærði hann því ekki að lesa og skrifa. Það var mikil vinna og þurfti hann jafnvel að vinna í 12 tíma á dag. Eitt skipti sagði hann við föður sinn á leið heim úr vinnu að 12 tímar væru lengi að líða í vinnunni, og faðir hans horfði á hann með tárin í augunum. Móðir hans og faðir voru ekki trúuð en amma hans tók hann alltaf með í kirkju. Þegar hann var 8 ára þá frelsaðist hann með djúpri opinberun um það sem Jesús hafði dáið og risið upp frá dauðum fyrir hann og alla sem vilja.
Yngri ár hans voru full af hungri til Guðs og þráði hann að geta lesið Biblíuna. Þegar hann varð 23 ára giftist hann Mary Jane eða Polly eins og hún var kölluð. Þau kynntust í hjálpræðishernum og eignuðust þau 5 börn. Hún kenndi Smith að lesa og gat hann því farið að lesa Biblíuna eftir að þau kynntust. Þau voru bæði mjög trúuð og höfðu mikla neyð fyrir stað í Bradford sem hafði enga kirkju og opnuðu þar þjónustu og byrjuðu að þjóna saman.
Polly sá um að predika á meðan að Smith bað og svo þjónuðu þau saman til fólksins. Ástæðan fyrir því að hann predikaði ekki var aðalega vegna erfiðleika hans við að tala, en það átti eftir að breytast. Þegar vakningin byrjaði í Wales og hafði farið um allt, kom hann á samkomu í Sunderland þar sem fólk var að fyllast heilögum anda og tala tungum, hrópaði hann á Guð eftir því að skírast í Heilögum Anda og Guð mætti honum. Eftir að Smith kom til baka þá tók Polly á móti honum með þeim orðum að hún væri alveg jafn mikið skýrð í Heilögum Anda og hann þótt hún talaði ekki tungum. Hún sagði að hann gæti sjálfur predikað næsta sunnudag. Smith predikaði með ákveðni og öryggi eitthvað sem Polly hafði ekki séð áður og stuttu eftir þetta voru hundruðir farnir að tala í tungum á svæðinu, þar á meðal Polly.
Stuttu eftir þessa atburði deyr Polly og fer heim til Drottins. Smith fer á fullt út í þjónustu og verður einn eftirsóttasti predikarinn í hvítasunnuvakningunni. Það er ekki mikið talað um hvernig hann tók því að missa konuna sína, en við getum trúað því að það hafi verið mikill missir. Svo það voru mis miklar þrengingar sem þetta Guðsfólk lenti í, Smith glímdi einnig við gífurlega sársaukafulla nýrnasteina á ákveðnu skeiði og var það svo sársaukafullt að hann hreinlega lág og vellti sér úr sársauka á milli þess sem hann var að predika. Við sjáum þetta einnig með því að skoða líf lærisveinanna, það voru sannarlega þrengingar sem fylgdu þeim sem trúa.
2 Korintubréf 12:7
Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.
Við sjáum að það mæðir á þessu mikla Guðsfólki en það var samt reiðubúið að gefa líf sitt fyrir fagnaðarerindið. Það var eins með lærisveinanna þeir voru lamdir, ofsóttir, settir í fangelsi en samt gáfu þeir líf sitt, jafnvel til dauða. Óvinurinn hatar þá sem finna þennan stað í Guði og leggur sig allan fram við að drepa þá, hrakyrða þá og ofsækja.
Óvenjulegir vitnisburðir
Smith var sérstakur. Hann var mjög óheflaður og tók á syndinni og sjúkdómum á óvenjulegan hátt. Hann átti það til að spyrja fólk hvar því væri illt og svo rak hann hnefann á þann stað með krafti á meðan hann hastaði á djöfullinn og fólk fékk fullkomna lækningu. Eitt skipti þá var dauðvona kona sem var komið með á sjúkrarúmi, hún gat ekki staðið því hún var svo veikburða. Smith tók hana af rúminu og skipaði henni að standa, hann studdi við hana og sleppti síðan og hún hrundi í gólfið, þetta endurtók hann nokkur skipti. Fólkið sem hafði komið með konuna hrópaði að hringt yrði á lögregluna. Smith var hinn rólegasti og í 5 skiptið stóð konan og var alheilbrigð. Mörg lík dæmi eru til þar sem hann tók mjög óvenjulega á málum, eitt skiptið var ungur maður á samkomu þar sem hann var að predika. Smith sá illan anda í honum og andinn vissi að hann hefði séð sig og ætlaði út ásamt manninum sem hann var í. Smith hélt nú ekki stökk niður af pallinum og tæklaði manninn í hurðinni og kastaði út af honum illa andanum og maðurinn leystist. Þetta eru aðeins brot af mörgum stórkostlegum frásögum í kringum líf hans og hvet ég ykkur því endilega til að kynna ykkur líf hans betur, því það er mjög gaman að lesa um hann.
Þrátt fyrir að Smith hafi ekki verið sá sem átti þátt í byrjun vakningarinnar í Wales eða í hvítasunnuvakningunni. Þá var hann einn af þekktustu Guðsmönnum síns tíma, hann fór um 1922 til Ástralíu og Nýja Sjálands þar sem vakning braust út og á nokkrum mánuðum sá hann þúsundir frelsast og margar hvítasunnukirkjur fæðast. Þjónustu hans fylgdu þvílík kraftaverk. Tákn og undur, hinir dauðu risu upp og fólk grét jafnvel og gaf Guði líf sitt bara á að vera nálægt honum án þess að hann segði orð, svo mikill var krafturinn.
Guð er megnugur að gera allt þetta og meira. Ég trúi því með öllu sem í mér er að Guð sé að fara starfa með slíkum krafti aftur og að hann sé að leita að fólki sem er tilbúið að gera það sem til þarf.
Hvað er það sem til þarf
Við sjáum það á því að skoða líf þess fólks. Það var reiðubúið að deyja sjálfum sér, skilja við það sem heimurinn hefur upp á að bjóða og trúði með öllu sem í því var að það sem Biblían segir sé sannleikur og að Jesús Kristur sé sá sami í gær, í dag og um aldir.
Þetta er það sem við þurfum að vera reiðubúin að gera ef við viljum að Guð noti okkur á þennan hátt.
Ert þú reiðubúinn
Ef þú svarar játandi, byrjaðu þá strax í dag að leita Guðs af öllu hjarta, biddu hann um að sýna þér hvað þú þarft að gera og biddu hann um náð til að geta hlýtt því sem hann fer fram á. Allt getur sá sem trúir!
Lester Sumerall vitnar um sýn Smith Wigglesworth um endatímavakninguna
“Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” Heb 13:7-8