Trúin er dauð án verka!
Upptaka þann 26.desember 2024
Síðasta kennslan á árinu 2024 er komin hér á hljóðformi. Þetta er í raun samantekt og niðurlag á því sem við erum búin að vera að leggja áherslu á í desember. Áhersla á helgun, bæn og föstu til að gera okkur tilbúin fyrir nýtt tímabil og staðsetja okkur frammi fyrir Guði í auðmýkt, iðrun og kærleika. Við erum kölluð til þjónustu í ríki Guðs, okkur einu og sérhverju hefur verið gefið talentur til að ávaxta fyrir Drottinn með einum eða öðrum hætti. Það eru ekki allir kallaðir í sömu hlutverk, það eru ekki allir kallaðir til að tala yfir stórum hópum, eða ferðast um heiminn í trúboði, en það geta allir gefið af fjármunum sínum inn í slík störf, líkt og fólk gerði í Postulasögunni. Öll hlutverk í líkamanum eru mikilvæg. Allir geta blessað eða hjálpað til með einhverjum hætti í þjónustu Drottins og þannig fengið hlutdeild í uppskerunni. Sjáum hvað Jakob segir okkur um hreina guðrækni, og svo setti ég inn nokkur vers hér fyrir neðan úr kennslunni. En minni einnig á að hægt er að sækja punktana á PDF með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.
Jakobsbréfið 1:27
Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.
Efesusbréfið 2:10
Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.
Fyrra Jóhannesarbréf 3:17-18
Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? -18- Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.
Matteusarguðspjall 10:8
Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.
Jóhannesarguðspjall 14:12
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.
Guð blessi þig!
Ef þig langar að prufa að koma í heimahópinn okkar þá ertu hjartanlega velkomin. Við hittumst á Borg í Grímsnesi klukkan 19:15 alla fimmtudaga. Hafðu samband til að fá nánari upplýsingar um heimilsfang og mögulegt far með trúsystkinum ef þú ert til dæmis Í Reykjavík eða nágrenni.
Hebreabréfið 10:25
Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.