Hvítasunnuhreyfingin á Íslandi

Vestur–Íslendingurinn Guðmundur Páll Jónsson, sem gerst hafði hvítasunnuprédikari, kom hingað til lands árið 1918 og hóf fyrstur hvítasunnumanna starf í Reykjavík, en hafði ekki erindi sem erfiði. Það var ekki fyrr en norski trúboðinn Erik Åsbö var sendur ásamt konu sinni Signe til landsins árið 1920, að hvítasunnuvakningin náði að skjóta rótum meðal landsmanna. Åsbö hafði áður fengið sýn um hvar hann ætti að hefja starf sitt, en á ferð sinni hringinn í kringum landið fann hann staðinn hvergi. Eftir árangurslítið boðunarstarf með Páli Jónssyni í Reykjavík ákvað Åsbö sumarið 1921 að halda heim á leið, en með viðkomu í Vestmannaeyjum. Er skemmst frá því að segja, að þar fann hann loks þann stað, sem hann hafði séð í sýninni og var honum útvegað húsaskjól af Gísla Johnsen konsúl, einum valdamesta manni Vestmannaeyja, sem hafði tekið á móti honum fyrir misskilning. Gísli hafði ætlað að sækja norskan fuglaskoðara niður á bryggju, sem átti að gista hjá honum, en villtist á honum og Åsbö. Hann vildi þó ekki vísa Åsbö burt, þar sem hann var kominn heim til hans nema að koma honum fyrir annars staðar, sem hann og gerði. Auk þess hjálpaði hann Åsbö í leiðinni að finna stað fyrir samkomur. Åsbö hjónin höfðu nokkru áður kynnst Sveinbjörgu Jóhannsdóttur, sem frelsast hafði á samkomu hjá Hjálpræðishernum á Akureyri og kynnst hvítasunnuvakningunni úti í Kanada (Sveinbjörg var systir Ólafíu Jóhannsdóttur sem áður er getið). Sveinbjörg gerðist túlkur þeirra hjóna. Åsbö hjónin ásamt Sveinbjörgu héldu samkomur um sumarið. Voru það einkum eiginkonur verkamanna og sjómanna í bænum sem tóku við boðskapnum. Þegar andstaða við trúboð Åsbö hófst og reynt var að hrekja þau hjónin burt úr byggðinni, fóru Sveinbjörg og Signe að ganga milli húsmæðra í bænum, tala við þær og hafa biblíulestra í heimahúsum. Íbúar Vestmannaeyja voru tortryggnir gagnvart svokölluðum sértrúarsöfnuðum, eftir deilur í tengslum við trúboð Mormóna og brottflutning 200 eyjamanna til Utah í Bandaríkjunum.

Fyrsti söfnuður hvítasunnumanna, Betelsöfnuðurinn í Vestmannaeyjum, var stofnaður 19. febrúar 1926, eftir að reist hafði verið safnaðarhús, með tilstyrk Svía, en við það tækifæri tóku 19 manns niðurdýfingarskírn og tveir til viðbótar skömmu síðar. Einn hafði tekið skírn í Danmörku.

Árið 1936 kom Norðmaðurinn Thomas B. Barratt, sem áður er getið til landsins, en hann hefur verið kallaður faðir hvítasunnuhreyfingarinnar í Evrópu. Barratt átti þátt í stofnun fjölda safnaða hvítasunnumanna víðsvegar um Evrópu og reyndar einnig um allan heim. Í maímánuði þetta ár, stofnaði Barratt söfnuð í Reykjavík og einnig á Akureyri sem báðir báru nafnið Fíladelfía. Árið 1948 varð Ásmundur Eiríksson forstöðumaður í Reykjavík og Einar J. Gíslason í Vestmannaeyjum. Áður höfðu sænskir trúboðar gengt þessum störfum, t.d. Eric Ericson, sem var fyrsti forstöðumaðurinn í Reykjavík. Árið 1970 varð Einar J. Gíslason forstöðumaður safnaðarins í Reykjavík.

Fíladelfíukórinn (síðar Gospelkór Fíladelfíu) hefur hljóðritað og gefið út mikið af kristilegri tónlist ásamt því að halda
tónleika. Kórinn heldur árlega jólatónleika til styrktar bágstöddum. Fíladelfía forlag hefur gefið út allmargar bækur. Tímaritið Afturelding kom út á árunum 1934 – 1991. Barnablaðið kom út á árunum 1938–1996. Árið 1950 var byrjað að halda síðsumarmót (Kotmót) yfir verslunarmannahelgina í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð.

Hvítasunnumenn hafa tekið þátt í hjálparstarfi fyrir vímuefnasjúklinga, sem heitir Samhjálp. Hvítasunnukirkjur eru starfandi á eftirtöldum stöðum: Reykjavík, Akureyri, Vestmannaeyjum, Ísafirði, Keflavík, Selfossi, Kirkjulækjarkoti, Vopnafirði, Stykkishólmi, Höfn í Hornafirði og Akranesi. Hvítasunnusöfnuðir hafa starfað um lengri eða skemmri tíma t.d. á Húsavík, í Hrísey, á Ólafsfirði, á Sauðárkróki, Siglufirði og Skagaströnd.

Vakning í Hafnarfirði

Á fjórða áratug síðustu aldar, hélt lækningapredikarinn Sigurður Sigvaldason biblíulestra í heimahúsum á Íslandi. Sigurður var Vestur–Íslendingur og hafði áður verið kennari og trúboði í Kanada. Sigurður ferðaðist um, predikaði, dreifði bæklingum og seldi Biblíur. Fyrir bænir Sigurðar gerðust undursamlegir hlutir, en hann var gæddur náðargjöf lækningar. Sigurður samdi fjölda sálma og tvær af bókum hans voru gefnar út á íslensku. Sigurður var beinskeyttur predikari og oft kallaður Biblíu–Siggi, til aðgreiningar frá nafna sínum, Sigurði Sveinbjörnssyni (kallaður Siggi á kassanum), sem predikaði á kassa í miðbæ Reykjavíkur.

Þáttaskil urðu í þessari sögu, þegar Helga Þorkelsdóttir eiginkona Einars Einarssonar klæðskera í Hafnarfirði, læknaðist af berklum á lokastigi eftir fyrirbæn Sigurðar. Einar var meðlimur í KFUM og Helga var formaður Kristniboðsfélagsins. Fljótlega var farið að halda kristilegar samkomur á heimili þeirra hjóna. Árið 1935 bar það við, að ljósmóðirin Guðrún Jónsdóttir skírðist í heilögum anda, en hún hafði áður tekið þátt í starfi KFUK. Sigurður fór síðan til Kanada í eitt ár til að þjóna þar. Þegar Sigurður var farinn, tók Guðrún við leiðtogahlutverkinu ásamt Salbjörgu Eyjólfsdóttur (sem læknast hafði af berklum eftir fyrirbæn Sigurðar). Einar byggði skömmu síðar samkomuhús við heimili sitt að Austurgötu 6 í Hafnarfirði.

Árið 1940 hófst vakning heilags anda af miklum krafti m.a. með tungutali. Fljótlega kom í ljós, að Guðrún hafði náðargjöf lækningar í ríkum mæli. Varð hún eftirsóttur fyrirbiðjandi. Fjölmargar undursamlegar lækningar áttu sér stað, eftir fyrirbæn Guðrúnar. Vilborg Björnsdóttir starfaði lengi með Guðrúnu og Salbjörgu, en hún hafði læknast af alvarlegum augnsjúkdómi eftir fyrirbæn Guðrúnar. Árið 1943 var farið að halda samkomur í Reykjavík. Árið 1948, hóf starfið að Austurgötu 6, útgáfu tímarits sem nefndist Fagnaðarboði. Í upphafi flutti tímaritið m.a.fréttir af lækningavakningunni í Bandaríkjunum ásamt vitnisburðum um lækningakraftaverk á Íslandi og víðar. Árið 1958 var nýtt samkomuhús tekið í notkun að Hörgshlíð 12 í Reykjavík. Hörgshlíðarstarfið studdi kristilegt hjálparstarf, m.a. fatasendingar til Kóreu, dreifingu á Biblíum í Austur-Evrópu og barnaheimili Sally Olsen á Puerto Rico.

Guðrún varð landsþekkt vegna bænaþjónustunnar. Var starfið í daglegu tali kennt við hana og kallað „Guðrúnarsöfnuðurinn“. Eftir andlát Guðrúnar höfðu þær Elín Bjarnadóttir og Margrét Erlingsdóttir umsjón með safnaðarstarfinu.

Náðargjafavakningin

Náðargjafavakningin barst til Íslands, með hreyfingu Jesúfólksins frá Svíþjóð árið 1972. Upp úr þessu varð trúarvakning meðal fólks úr nokkrum kristnum samfélögum í Reykjavík. Þetta fólk kom í upphafi aðallega
KFUM & K. Fljótlega varð til bænahópur sem kallaður var „karismatíski hópurinn.“ Sóknarpresturinn í Grensáskirkju, séra Halldór S. Gröndal, hafði skírst í heilögum anda árið 1975. Halldór og „karismatíski hópurinn“ hófu sérstakar samkomur á fimmtudögum í Grensáskirkju snemma árs 1976, sem fljótlega urðu þungamiðjan í náðargjafavakningunni hér á landi. Fólk úr þessum hópi, sem vildi standa á grundvelli játninga Þjóðkirkjunnar og starfa í tengslum við hana, stofnaði síðan með sér samtök, Ungt fólk með hlutverk á hvítasunnudag árið 1976 og veitti Friðrik Ó. Schram starfinu forstöðu.

Kærleikurinn og CTF

Baldur Freyr Einarsson og fleiri sem áður höfðu starfað í undirheimum Reykjavíkurborgar hófu kristilegt starf, sem fékk nafnið Kærleikurinn, sumarið 2007 í samkomusal við Ármúla í Reykjavík. Í framhaldinu varð vakning meðal fólks sem var í eiturlyfjaneyslu eða tengdist fíkniefnaheiminum á höfuðborgarsvæðinu. Töluverður fjöldi losnaði undan ánauð fíkniefnanna eftir að hafa eignast lifandi trú á Jesú Krist. Kærleikurinn og „Catch the Fire Reykjavík“ (CTF), sem Guðbjartur Guðbjartsson og Sigríður Helga Ágústsdóttir stofnuðu 2008, höfðu samstarf um árabil. Í júlí árið 2014 sameinaðist Kærleikurinn og CTF.

Brot úr Kristnisögu eftir Eirík Magnússon.